Slíðrastör (Carex vaginata)

Mynd af Slíðrastör (Carex vaginata)
Mynd: Hörður Kristinsson
Slíðrastör (Carex vaginata)

Útbreiðsla

Algeng þurrlendisstör um allt land, nema á Suðurlandi milli Þjórsár og Hornafjarðar, þar virðist hún fremur sjaldséð. Slíðrastörin vex einkum frá láglendi upp í um 500 m hæð. Hæstu fundarstaðir hennar eru við Arnarfell hið mikla í 600 m hæð og í Kvarárdal við Kerlingu, Eyjafirði í 570 m (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Búsvæði

Kjarr, lyngmóar, gróðursælir bollar, ætíð í þurrlendi.

Lýsing

Meðalstór stör (20–45 sm) með fáblóma, upprétt kvenöx og eitt karlax í toppinn. Blómgast í maí–júní.

Blað

Stráin sljóþrístrend, gárótt. Blöðin breið, 3–5,5 mm, fagurgræn, flöt eða M-laga. Slíður stoðblaðanna löng, 10–20 mm (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Tvö til þrjú, leggjuð, upprétt kvenöx og eitt karlax í toppinn Axhlífar með stuttum oddi, brúnleitar með grænum miðstreng, himnurendar. Hulstrið allstórt, 4 mm, grænt, dregst saman í trjónu í toppinn, oft skakka og hliðbeygða. Þrjú fræni (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Blöð hennar líkjast blöðum stinnastarar en þekkist m.a. á alllöngu slíðri sem er við fót stoðblaðsins fyrir neðan neðra kvenaxið. Líkist annars einna helst belgjastör en slíðrastörin hefur fagurgrænni blöð, ljósari hulstur og vex í þurrara landi en belgjastörin sem er alltaf nokkuð blágræn.

Útbreiðsla - Slíðrastör? (Carex vaginata)
Útbreiðsla: Slíðrastör? (Carex vaginata)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |