Gróðurflokkun

Gróður er flokkaður og kortlagður víða um land í tengslum við nýtingu lands og náttúruvernd, ýmiss konar skipulagsvinnu og vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda eða áætlana. Fyrirliggjandi eru yfirlitskort stórra landsvæða og smærri afmarkaðra svæða.

Flokkunareiningar

Gróðurfélag er grunneining gróðurflokkunar og eru gróðurfélög flokkuð í gróðurlendi og gróðursamfélög eftir skyldleika þeirra innbyrðis. Lítt eða ógróið land er flokkað eftir landgerð. Við flokkun og kortlagningu gróðurs er notaður gróðurlykill (pdf).

Gróðurfélag

Gróður er flokkaður eftir ríkjandi og einkennandi tegundum í gróðurfélög og eru þau rúmlega 100 talsins. Gróðurfélag er flokkað eftir og kennt við ríkjandi eða einkennandi plöntutegundir eða tegundahópa. Í gróðurlyklinum eru þær tegundir sem hafa mesta þekju kallaðar ríkjandi. Einkennandi kallast tegundir sem einkenna tiltekið gróðurfélag óháð þekju.

Gróðurlendi

Þegar gróðurfélögum er skipað saman eftir innbyrðis skyldleika verða til stærri flokkunareiningar sem kallast gróðurlendi og eru þau um 20 talsins. Gróðurlendi eru flokkuð eftir ríkjandi og einkennandi tegundum eða tegundahópum en ekki nema að litlu leyti eftir landslagi og myndunarhætti þess. Þannig teljast öll gróðurfélög með ríkjandi mosa í þurrlendi til mosaþembu eða hélumosagróðurs. Gróðurfélög með ríkjandi grös teljast til graslendis jafnvel þó að um sé að ræða grös í valllendi, snjódæld eða á sjávarfitjum. Gróðurlendi innan votlendis eru flokkuð eftir stigvaxandi raka í deiglendi, mýrlendi, flóa og vatnagróður.

Gróðursamfélög

Gróðursamfélag er stærsta einingin sem notuð er við flokkun gróðurs og eru þau sjö talsins. Þau eru aðallega flokkuð eftir undirlagi og myndunarhætti en einnig vaxtarformi plöntutegunda og gróðurlendum. Gróðurlendum er skipað saman innan hvers gróðursamfélags eftir sameiginlegum eðlis- og landfræðilegum þáttum. Sem dæmi er gróðurlendunum lyngmóa, fjalldrapamóa, víðimóa, þursaskeggs- og sefmóa, starmóa og fléttumóa skipað saman í gróðursamfélagið mólendi. Gróðurlendin deiglendi, mýri, flói og vatnagróður tilheyra gróðursamfélaginu votlendi.

Gróðursamfélögin eru:

  • Moslendi

    Moslendi

    Mosar þekja meira en helming af heildargróðurþekju landsins en æðplöntur eru strjálar. Lífrænn jarðvegur er yfirleitt lítill. Moslendinu tilheyra annars vegar mosagróður, en þar eru gamburmosar (Racomitrium spp.) ríkjandi, og hins vegar hélumosagróður, sem er snjódældagróður. Einkennistegundir í hélumosagróðri eru mosar af ættkvíslinni Anthelia.

     

    Mosaþemba við Hrafntinnusker
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Mosaþemba við Hrafntinnusker

    Mosagróður (gróðurlendi)

    Þegar þekja gamburmosa (Racomitrium spp.) í gróðursamfélögum er meiri en 50% og annar gróður er mjög gisinn flokkast gróðurinn sem mosagróður eða mosaþemba. Mosi getur einnig verið mjög áberandi í öðrum gróður­sam­félögum án þess að þau flokkist sem mosagróður. Hann þrífst best þar sem úrkoma er mikil en þó á snjóléttum stöðum bæði í fjöllum þar sem gróðurþekjan er gisin og jarðvegur þurr og þunnur og á flatlendinu þar sem gróður­þekjan getur verið samfelldari. Þykk mosaþemba er algeng á hrauni, einkum sunnan- og vestanlands. Í öllum gróðurfélögum mosagróðurs eru hraungambri og mela­gambri ríkjandi tegundir en gróðurfélög eru flokkuð nánar eftir einkennandi æðplöntum sem vaxa í mosaþembunni. Á hrauni og í þýfðu landi vex gamburmosi best ofan á hraunkollum og þúfum en lyng- og grastegundir sem vaxa með honum ná mestri þekju í dældum og lautum milli þúfna. Dæmi um æðplöntur sem vaxa í mosanum eru stinnastör, vinglar, língresi, þursaskegg, móasef, víðir, krækilyng, bláberjalyng, beitilyng, geldingahnappur og kornsúra.

     

    Hélumosagróður við Hólmsárlón
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Hélumosagróður við Hólmsárlón

    Hélumosagróður (gróðurlendi)

    Hélumosagróður er snjódældagróður sem er helst að finna til fjalla, einkum í lægðum þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori. Hélumosar (Anthelia spp.) vaxa eins og skán ofan á jarðveginum en mynda ekki eiginlega mosaþembu eins og gamburmosar. Yfirborðið verður hálf skorpið og virðist oft við fyrstu sýn vera ógróið. Ósamfelldan hélumosa er hægt að finna á stórum svæðum til fjalla en samfellt gróinn nær hann sjaldnast yfir nema lítil svæði. Grasvíðir er algengasta fylgitegundin. Þekja hans er mismikil, frá því að vera strjál í það að vera töluverð þannig að hann verður einkennandi með hélumosanum. Grávíðir/fjallavíðir og loðvíðir koma einnig fyrir en aðrar tegundir eru strjálar.

  • Mólendi

    Mólendi

    Mólendi er þurrlent, jarðvegur er oftast þykkur og yfirborðið er gjarnan þýft. Það er breytilegt hversu þýft mólendið er, allt frá því að vera nánast slétt eða smáþýft þar sem jarðvegur er þurrastur og þynnstur, til að vera stórþýft þar sem er jarðvegur er þykkastur og rakastur. Rofdílar eru algengir áveðurs í þúfum og gróðurþekja skert. Mólendi einkennist af margskonar tegunda­­hópum svo sem lyngi, runnum, þursaskeggi, störum og fléttum. Gróður­­lendi mólendis eru lyngmói, fjalldrapamói, víðimói, þursaskeggsmói, sefmói, starmói og fléttu­mói.

     

    Móagróður í Hrísey
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Lyngmói í Hrísey

    Lyngmói (gróðurlendi)

    Lyngmói er yfirleitt í þurrum og þýfðum móajarðvegi og er krækilyngsmói, ásamt holtasóleyjarmóa, þeirra þurrastir og ber yfirleitt nokkuð á gamburmosa í þúfnakollum og einnig eru fléttur nokkuð áberandi. Gróðurþekjan er misjafnlega samfelld og víðast má sjá einhver merki rofs. Í lyngmóa ríkja lágvaxnir smárunnar eins og krækilyng, bláberjalyng, beitilyng, sortulyng og aðalbláberjalyng og einnig holtsóley.

     

    Fjalldrapamói við Þeistareyki
    Mynd: Sigrún Jónsdóttir

    Fjalldrapamói við Þeistareyki

    Fjalldrapamói (gróðurlendi)

    Í fjalldrapamóa er fjalldrapi ýmist ríkjandi eða einkennandi tegund. Aðrir smárunnar hverfa oftast í skuggann fyrir honum. Fjalldrapi er oft mjög áberandi í landslag­i. Fjalldrapamóar finnast á þurrum en misjafnlega þykk­um jarðvegi, oftast þýfð­ir. Snjór liggur að jafnaði lengur yfir fjalldrapamóa en kræki­lyngsmóa. Gróðurþekja er yfirleitt samfelld. Einkennandi tegundir auk fjalldrapans eru krækilyng, bláberjalyng, þursaskegg, grös og víðitegundir. Fjalldrapamóar eru mun algengari um norðanvert landið en sunnavert.

     

    Víðimói við Jökulsárgljúfur
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Víðimói við Jökulsárgljúfur

    Víðimói (gróðurlendi)

    Víðimói er nokkuð fjölbreytt gróðurlendi þar sem víðitegundirnar grávíðir/fjallavíðir og loðvíðir eru ríkjandi í þekju og gróðursvip. Jarðvegur er jafnan sendinn og yfirleitt er grávíðir/fjallavíðir algengari þar sem raki er meiri. Ýmsar aðrar tegundir einkenna víðimóann, t.d. krækilyng, fjalldrapi og grös. Ástæða þess að notast er við grávíðir/fjallavíði er að fjallavíðir var áður nefndur grávíðir.

     

    Þursaskeggs- og sefmói á Melrakkasléttu
    Mynd: Starri Heiðmarsson

    Þursaskeggs- og sefmói á Melrakkasléttu

    Þursaskeggs- og sefmói (gróðurlendi)

    Mjög þurrlendur og rýr mói þar sem þursaskegg eða móasef eru einkennistegundir. Jarðvegur er yfirleitt grunnur og yfirborðið að mestu slétt eða smáþýft. Þursaskegg vex í þéttum toppum og myndar gjarnan samfelldar breiður. Þursaskeggsmói er tilsýndar móleitur að lit, einkum þegar líður á sumar. Í sefmóa er gróðurþekjan oftast fremur gisin. Einkennis­tegundin móasef er mjög áberandi þrátt fyrir að það vaxi nokkuð strjált.

     

    Starmói í Glerárdal
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Starmói í Glerárdal

    Starmói (gróðurlendi)

    Sameiginlegt með starmóa er að ríkjandi og einkennandi tegundir eru starategundirnar stinnastör, móastör eða rjúpustör sem vaxa í þurrlendi. Gróðurþekja í starmóa er oftast samfelld og hann er iðulega þýfður og jafnvel stórþýfður. Hann finnst yfirleitt í nokkuð rökum og talsvert þykkum jarðvegi. Starmói er algengur á þurrari svæðum inni í mýrlendi og í mýrajöðrum og rennur oft saman við mýrlendi án skarpra skila.

     

    Fléttumói í Glerárdal
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Fléttumói í Glerárdal

    Fléttumói (gróðurlendi)

    Í fléttumóa eru fléttur meira en helmingur heildargróðurþekjunnar. Ríkjandi fléttutegundir eru oftast hreindýrakrókar (hreindýramosi), fjallagrös og grábreyskingur. Fléttumóar eru algengir á snjóléttum stöðum og þar sem jarðvegur er þurr, t.d. í hrauni, í hlíðum og á flatlendi. Hann er gjarnan í blönduðu gróðurfélagi með öðrum mólendisgróðri.

  • Graslendi

    Graslendi

    Graslendi er flokkað í gróðurlendin valllendi, melgresi, sjávarfitjar og finnung. Grastegundir einkenna alla flokkana en gróðurfélög þeirra eru háð mjög ólíkum umhverfisþáttum. Jarðvegur er oftast þykkur og frjósamur en það fer þó eftir því hvers konar gróðurlendi er um að ræða.

     

    Valllendi eða Blóm- og graslendisgróður í Þjófadal
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Valllendi í Þjófadal

    Valllendi (gróðurlendi)

    Í valllendi eru grös ríkjandi, ýmist ein sér eða með smárunnum, stinnastör eða elftingu. Helstu fylgitegundir með grösunum eru stinnastör, grasvíðir, krækilyng, bláberjalyng og klóelfting. Jarðvegur er frjór en tiltölulega þurr og fremur þykkur nema í grónum skriðum. Gróðurþekja er yfirleitt samfelld nema þar sem land er að gróa upp. Valllendi er aðallega á flatlendi en einnig í hlíðum, einkum hlíðarrótum. Yfirborðið er tiltölulega slétt en á stöku stað þýft. Valllendi er oft að finna þar sem gróðurskilyrði eru góð og við friðun er það oft fljótt að breytast í mosaríkt blóm­lendi.

     

    Strandgróður á Skeiðarársandi
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Melgresi á Skeiðarársandi

    Melgresi (gróðurlendi)

    Melgresi vex á söndum, oftast á foksandi og er gróðurþekja ósamfelld og gisin. Yfirborð er yfirleitt öldótt en breytilegt því melgresisþúfur eða hólar byggjast upp og brotna niður á víxl. Víða er melgresi einrátt en þær tegundir sem fyrstar vaxa með því eru túnvingull, klóelfting og holurt. Melgresi heftir sandfok og hefur verið notað til uppgræðslu víða um land. Ekki er gerður greinarmunur á náttúrulegu eða ræktuðu melgresi.

     

    Sjávarfitjar á Mýrum
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Sjávarfitjar á Mýrum

    Sjávarfitjar (gróðurlendi)

    Svæði ofarlega í fjörum með samfelldum æðplöntugróðri þar sem sjávarselta er mikil og sjór getur flætt yfir. Sjávarfitjar eru votlendar, jarðvegur er leirblandinn og grös og starir ríkjandi í gróðri. Ríkjandi grastegund er sjávarfitjungur en með honum vaxa t.d. flæðastör, skriðstör, kattartunga, skriðlíngresi og túnvingull. Sjávarfitjar eru algengar með ströndum landsins en víðast aðeins örmjóar ræmur eða blettir. Þær myndast aðeins þar sem sæmilega skýlt er, til dæmis innst í vogum og fjörðum og getur sjór verið blandaður árvatni.

     

    Finnungur á Melrakkasléttu
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Finnungur á Melrakkasléttu

    Finnungur (gróðurlendi)

    Gróðurlendið þekur sjaldan stór samfelld svæði en finnst oftast í brekkum eða lautum þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori og jarðvegur helst því nokkuð rakur. Ríkjandi tegund er finnungur sem oft er gráhvítur eða gulleitur að sjá vegna sinu. Einkennandi tegundir sem vaxa með finnungnum eru ilmreyr, hálíngresi, þráðsef og stundum bugðupuntur og týtulíngresi.

  • Blómlendi

    Blómlendi

    Sameiginlegt einkenni blómlendis er að þekja tvíkímblaða blómjurta eða burkna er mikil en sjaldnast þekur blómlendið stór svæði. Um er að ræða fjölskrúðugt gróðursamfélag þar sem gróður er samfelldur og mosi oft með litla þekju. Gróðursamfélagið skiptist í blómlendi og alaskalúpínu. Blómlendi finnst aðallega þar sem lífsskilyrði fyrir gróður eru hagstæð, t.d. skjól, raki, frjór jarðvegur og sólríkt. Dæmi um ríkjandi tegundir eru blágresi, brennisóley, ætihvönn, mjaðjurt, skógarkerfill, fjöllaufungur, stóriburkni, maríustakkur, ljónslappi og eyrarrós. Alaskalúpína er flokkuð sérstaklega vegna sérstöðu sinnar sem breiðumyndandi framandi ágeng tegund.

     

    Ætihvannarstóð sunnan við Grænavatn í Veiðivötnum
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Ætihvannarstóð sunnan við Grænavatn í Veiðivötnum

    Blómlendi (gróðurlendi)

    Í blómlendi eru blómjurtir eða burknar ríkjandi. Gróðurskilyrði eru mismunandi eftir því hvort í hlut eiga hávaxnar blómjurtir eða lágvaxnar blómjurtir. Blómlendi finnst þó yfirleitt þar sem gróðurskilyrði eru afar hagstæð, í skjólsælum og sólríkum dældum og lægðum þar sem jarðvegur er frjór og rakur en finnst einnig á opnara landi eins og á árbökkum, í skriðum eða á röku sendnu landi. Gróður getur verið einsleitur þar sem ríkir einungis ein tegund, til dæmis ætihvönn en einnig getur gróður verið fjölbreytilegur og engin ein blómjurt er meira áberandi en önnur.

     

    Alaskalúpína við Atley
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Alaskalúpína við Atley

    Alaskalúpína (gróðurlendi)

    Alaskalúpína var flutt inn um miðja 20. öld til uppgræðslu örfoka lands. Hún er öflug landgræðslujurt og á auðvelt með að breiðast hratt út og mynda smám saman þéttar breiður. Að sama skapi getur hún auðveldlega lagt undir sig gróin svæði og útrýmt lágvöxnum gróðri sem fyrir er. Hún er flokkuð sem framandi ágeng plöntutegund.

  • Kjarr- og skóglendi

    Kjarr- og skóglendi

    Kjarr- og skóglendi á hér fyrst og fremst við náttúrulegt kjarr- og skóglendi þar sem birki eða gulvíðir eru einkennandi tegundir. Báðar þessar tegundir mynda kjarr en birki er eina trjátegundin sem myndar samfelldan náttúrulegan skóg á Íslandi. Krónuþekja fullvaxins trjágróðurs skal þekja meira en 10% af flatarmáli til að geta kallast skógur og kjarr. Lyng, grös, blómjurtir og einnig elftingar eru gjarnan í botngróðri. Gróður á skógarbotni er mismunandi og hafa þættir eins og þéttleiki trjáa, frjósemi, raki jarðvegs og hæð yfir sjávarmáli og beit áhrif á hann. Jarðvegur er nokkuð þykkur og fremur frjósamur. Kjarr er 0,5-2 m að hæð en skógur er yfir 2 m að hæð.                                                            

     

    Kjarr- og skógargróður við Hólmsá
    Mynd: Helga Margrét Schram

    Birkikjarr- og skóglendi við Hólmsá

    Birkikjarr- og skóglendi (gróðurlendi)

    Birki getur ýmist myndað þétt kjarr (0,5-2 m) eða skóg (meira en 2 m hæð) og er eina innlenda trjátegundin sem myndar samfelldan skóg á Íslandi. Aðrar trjátegundir sem vaxa sem stök tré eða í þyrpingu með birkinu er t.d. gulvíðir, loðvíðir og reyniviður. Undirgróður er breytilegur og einkennist ýmist af lyngtegundum, grastegundum og jafnvel blómjurtum. Jarðvegur er nokkuð þykkur og fremur frjósamur.

     

    Gulvíðikjarr við Blöndulón
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Gulvíðikjarr við Blöndulón

    Gulvíðikjarr (gróðurlendi)

    Gulvíðir er ríkjandi og myndar kjarrgróður (0,5-2 m) en getur við góð vaxtarskilyrði náð nokkurra metra hæð. Grös eru einkennandi með gulvíðinum og stundum loðvíðir. Gulvíðikjarr tilheyrir aðallega láglendisgróðri en sums staðar myndar gulvíðir samfelldan gróður hér og þar á miðhálendinu.

  • Ræktað land

    Ræktað land

    Það land sem hefur mótast af ræktun mannsins, m.a. ræktun nytjaplantna, garð- og akuryrkja og túnrækt. Það nær einnig til ræktaðs graslendis á uppgræðslusvæðum og skógræktar. Ræktað land er flokkað í garðlönd og tún, uppgrætt land og skógrækt.

     

    Garðlönd og tún í Skaftárdal
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Garðlönd og tún í Skaftárdal

    Garðlönd og tún (gróðurlendi)

    Land þar sem ræktaðar eru matjurtir, korn, grænfóður og fóðurgrös eða land sem tekið hefur verið til túnræktar. Átt er bæði við tún í notkun og gömul tún sem hætt er að nýta til heyöflunar. Ríkj­andi tegundir eru oftast innflutt fóð­ur­grös en einnig finnast inn­lend grös og jurtir.

     

    Uppgrætt land við Blönduvirkjun
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Uppgrætt land við Blönduvirkjun

    Uppgrætt land (gróðurlendi)

    Hér er eingöngu átt við uppgræðslu með sáðgresistegundum sem gjarnan eru notuð í landgræðslu á örfoka landi. Einnig tekur það til uppgræðslu á röskuðum svæðum af mannavöldum t.d. í námum og öðrum efnistökustöðum ásamt vegköntum. Helstu grastegundir eru túnvingull, bæði innfluttur og innlendur, vallarsveifgras, snarrótarpuntur, beringspuntur og rýgresi.

     

    Skógrækt í Skaftárdal
    Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir

    Skógrækt í Skaftárdal

    Skógrækt (gróðurlendi)

    Skógrækt samanstendur af ræktuðum trjátegundum. Trjátegundirnar eru oft af erlendum uppruna og má þar nefna lerki, sitkagreni, stafafuru, alaskaösp og alaskavíðir. Birki er aðal íslenska tegundin sem plantað hefur verið út ásamt íslenskum víðitegundum. Ásýnd gróðurlendisins getur verið mjög mismunandi eftir því hvort um barrskóg, laufskóg eða blandaðan skóg er að ræða og einnig eftir aldri, stærð og þéttleika trjáa en oftast sker það sig greinilega frá nærliggjandi gróðri. Að sama skapi er botngróður mismunandi og misþéttur.

  • Votlendi

    Votlendi

    Votlendi einkennist af hárri vatnsstöðu þar sem vatnið er yfir eða rétt undir jarðvegsyfirborði. Gerð votlendis ræðst af ólíkum þáttum. Þeir sem eru einna helst ráðandi eru uppruni, rennsli og dýpi vatns og styrkur næringarefna. Deiglendi, mýri, flói og vatnagróður tilheyra votlendinu þar sem deiglendi er þurrasti hluti votlendisins en flói og vatnagróður blautasti hluti þess.

     

    Deiglendi með vætumosum við Hólmsá
    Mynd: Sigrún Jónsdóttir

    Deiglendi með vætumosum við Hólmsá

    Deiglendi (gróðurlendi)

    Deiglendi er hálfblautt land á mörkum votlendis og þurrlendis, oft nefnt hálfdeigja eða jaðar. Deiglendi er einnig víða á rökum söndum t.d. á áreyrum og jökulaurum. Deiglendi nær sjaldnast yfir stór víðlend svæði heldur eru þetta yfirleitt litlir gróðurblettir eða ræmur. Mismunandi er hvaða plöntutegundir eru ríkjandi og fer það m.a.eftir jarðvegsraka, legu lands og nærliggjandi gróðri. Algengastar eru hrossanál og hálmgresi en einnig ýmsar starir, grös, víðitegundir og klóelfting. Vætumosar eru gjarnan í sverði og jafnvel ríkjandi.

     

    Mýri í Glerárdal
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Mýri í Glerárdal

    Mýri (gróðurlendi)

    Mýri myndast þar sem yfirborð jarðvatnsins er jafnan um eða rétt undir gróðursverðinum. Í mýrlendi stendur jarðvatn uppi í grassverðinum en sveiflast eftir árstíma og úrkomu. Jarðvatnið er jafnan á hreyfingu og sígur fram. Mýrlendið er gjarnan smáþýft. Mýrin er fremur stöðugt gróðurlendi og lífríki hennar er jafnan fjölskrúðugt.

     

    Gulstararflói við Krísuvík
    Mynd: Sigrún Jónsdóttir

    Gulstararflói við Krísuvík

    Flói (gróðurlendi)

    Flói er blautasti hluti votlendisins og mestan hluta árs liggur vatn yfir gróðursvörðinn í flóanum. Flóinn er hallalaus og yfirborð hans að mestu slétt. Flói er súrari og næringarsnauðari en mýri og mun tegundasnauðari en mýrlendi. Í flóa verður ein tegund ráðandi á stórum svæðum og eftir ríkjandi tegundum skiptist hann t.d. í gulstaraflóa, tjarnastararflóa, klófífuflóa, hengistararflóa og vetrarkvíðastararflóa.

     

    Vatnagróður í Hornafirði
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Vatnagróður í Hornafirði

    Vatnagróður (gróðurlendi)

    Sá gróður sem vex í vötnum og tjörnum er hluti votlendis. Vatnagróður er fyrst og fremst í grunnu vatni, gjarnan í lygnum víkum og tjörnum. Vatnagróður nær sjaldan yfir víðfeðm svæði og kemur því ekki oft fyrir á gróðurkortum.

 

Landgerðir

Landgerðir eru lítt eða ógróið land sem er með minna en 10% gróðurþekju. Þær eru flokkaðar í um 20 flokka eftir eðlisrænum eiginleikum en ekki eftir ríkjandi eða einkennandi tegundum plantna. Landgerðir eru flokkaðar í náttúrulegar og manngerðar landgerðir. Vatn í ám og vötnum er einnig flokkað með landgerðum.

Gróðurinn er strjáll og vex í smátoppum og þúfum og er yfirborð ýmist þakið möl, grjóti, sandi, leir eða klöpp. Fjöldi tegunda og samsetning er mismunandi eftir staðháttum. Lítt eða ógróið land er algengt á hálendinu þar sem gróðurþekja er víða lítil og eru mosar og fléttur meira áberandi til fjalla en á láglendi. Meðfram stórfljótum á láglendi er verulegur hluti bersvæðis sandar og annar árframburður.

Landgerðirnar eru:

  • Náttúrulegar landgerðir

    Náttúrulegar landgerðir

    Stórgrýtt land á Vestfjörðum
    Mynd: Rannveig Thoroddsen

    Stórgrýtt land á Vestfjörðum

    Lítt eða ógróið land sem flokkað er eftir eiginleikum landgerðar og hefur ekki verið raskað af mannavöldum. Gróðurþekja er undir 10%.

     

  • Manngerðar landgerðir

    Manngerðar landgerðir

    Mannvirki í Eldvörpum
    Mynd: Guðmundur Guðjónsson

    Mannvirki í Eldvörpum

    Lítt eða ógróið land sem raskað hefur verið af mannavöldum. Hér er átt við byggð og önnur mannvirki, t.d. vegi og önnur malbikuð svæði, allt raskað land af mannavöldum t.d. ófrágengin framkvæmdasvæði og efnisnámur á yfirborði. Gróðurþekja er undir 10%.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |