GRÓÐUR

Gróður samanstendur af hópi plantna sem myndar þekju á yfirborði jarðar. Hægt er að fjalla um gróður út frá mismunandi þáttum, svo sem tegundum (flóru), samsetningu gróðurs, útbreiðslu í tíma og rúmi, landfræðilegum einingum eða lífsformi. Til plantna teljast mosar, byrkningar, berfrævingar, blómplöntur (dulfrævingar) og grænþörungar. Plöntur eru því margbrotnar að stærð og gerð, frá smáum þörungum upp í stór tré.

Birki í forgrunni og votlendi
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Birki í forgrunni og votlendi á Mýrum

Gróðurfar stjórnast af ýmsum þáttum í umhverfinu og þar skipta veðurfar og jarðgrunnur miklu máli. Hér á landi eru úthafsloftslag, gosvirkni, hreyfingar skriðjökla og ofbeit á meðal þeirra þátta sem eru óhagstæðir fyrir vöxt og framvindu gróðurs. Allmiklar breytingar hafa orðið á gróðurfari frá landnámi. Ýmis umskipti á gróðri eiga sér einnig stað um þessar mundir sem rekja má til áhrifa mannsins.

Ísland er fremur hrjóstrugt land og einungis fjórðungur landsins er þakinn gróðri. Á láglendi er landið fremur vel gróið en í 200–400 metra hæð yfir sjávarmáli dregur mjög úr gróðri og þegar komið er í 700 metra hæð er landið að mestu gróðursnautt. Gróður landsins einkennist af lágvöxnum plöntum og fremur fáum villtum plöntum. Í aldanna rás hefur orðið eyðing á gróðri og skógi, hvoru tveggja vegna áhrifa náttúruaflanna og áhrifa mannsins. Talið er að við landnám hafi 60% landsins verið gróið land en er nú um 25%.

Gróður er flokkaður á ýmsa vegu og í mismunandi mælikvörðum. Hér á landi hefur hann meðal annars verið flokkaður í gróðurlendi og gróðurfélög en til viðbótar gegnir hann stóru hlutverki við skilgreiningu vistgerða. Uppruni gróðurs er af ólíkum toga, hann getur verið náttúrulegur og villtur en einnig alfarið ræktaður.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |