Surtseyjarleiðangur 2012

25.07.2012

Líffræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands fóru í sinn árlega rannsóknaleiðangur til Surtseyjar dagana 16. – 20. júlí ásamt samstarfsmönnum frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Umhverfisstofnun en leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Surtseyjarfélagið.  Að þessu sinni var háplöntuflóra eyjarinnar tekin út, skordýrum safnað, fuglalíf kannað, gerðar mælingar á gróðri og virkni hans í föstum mælireitum, sýni tekin af jarðvegi til efnamælinga og hugað að breytingum á strönd eyjarinnar.

Ástand gróðurs í Surtsey var víða mjög slæmt eftir þurrka sumarsins, einkum á hraunklöppum þar sem plöntur hafa visnað. Nýir landnemar plantna fundust ekki og hafði tegundum fækkað frá síðasta ári. Af smádýrum fundust hins vegar nýjar tegundir. Fuglalíf var í svipuðu horfi og undanfarin ár, ellefu tegundir varpfugla eru nú í eynni. Talning á hreiðrum máfa bendir til að varp þeirra sé á uppleið eftir nokkra lægð síðustu ár. Stöðugt sjávarrof Surtseyjar heldur áfram og merktu leiðangurmenn verulegar breytingar á strönd.

Gróður

Í leiðangrinum komu í leitirnar 58 tegundir háplanta og hafði tegundum fækkað um eina frá 2011. Alls hafa fundist 70 tegundir í Surtsey frá árinu 1965 en allnokkrar þeirra hafa ekki náð varanlegri fótfestu. Flestar voru þær í eynni árið 2007 er 65 tegundir fundust. Frá þeim tíma hefur gætt fækkunar. Þurrkar sumarsins 2012 hafa sett mark sitt á gróður í Surtsey en hann leit óvenju illa út. Á hraunklöppum sunnan til á eynni er jarðvegur þunnur og hætt við þornun. Þar voru gróin svæði sölnuð en á þeim vex alla jafna mikið af varpafitjungi, skarfakáli og fleiri tegundum. Gróður á vikursvæðum eyjarinnar var hins vegar í betra ástandi en þar hefur djúpraki sennilega verið enn til staðar eftir úrkomusaman vetur. Þar ríkja tegundirnar fjöruarfi, melgresi, holurt og melablóm. Þær höfðu lítið látið á sjá í þurrkinum. Mælingar á jarðvegsvirkni og kolefnisupptöku í gróðrinum staðfestu þetta einnig.

Surtsey 2012: Ástand gróðurs var víða mjög slæmt eftir langa þurrkatíð, einkum á hraunklöppum
Surtsey 2012: Hundasúra er í mikilli aukningu í sandorpnum hraunum og á ríkan þá í litadýrð gróðurframvindunnar

Ástand gróðurs var víða mjög slæmt eftir langa þurrkatíð, einkum á hraunklöppum. Ljósm. Erling Ólafsson.

Hundasúra er í mikilli aukningu í sandorpnum hraunum og á ríkan þá í litadýrð gróðurframvindunnar. Ljósm. Erling Ólafsson.

Smádýr

Líkt og gróðurinn liðu smádýrin fyrir þurrka sumarsins en þau voru fljót að svara lítilsháttar úrkomu sem gerði meðan á leiðangrinum stóð. Sniglategundirnar tvær sem finnast á eynni létu þó ekki á sér kræla. Tvær nýjar tegundir smádýra litu dagsljósið. Í fyrsta skipti fannst nú hjóllaga vefur köngulóar og reyndist smiðurinn vera maurkönguló (Larinioides patagiatus) sem er tiltölulega sjaldgæf tegund á Íslandi. Hin tegundin var fiðrildið brandygla (Euxoa ochrogaster) sem var talin líkleg til að nema land á Surtsey. Þá fer lirfum ertuyglu (Melanchra pisi) fjölgandi.

Maurkönguló spinnur hjólvef og fannst nú í fyrsta sinn í eynni. Ljósm. Erling Ólafsson.

Fuglar

Frá árinu 1970 hafa 15 tegundir varpfugla fundist í Surtsey. Flest bendir til að 11 þeirra hafi verpt í eynni sumarið 2012 eins og undanfarin þrjú ár. Það eru sjófuglar sem einkenna fuglalíf eyjarinnar en af þeim verpa teista, fýll, lundi, rita, svartbakur, sílamáfur og silfurmáfur. Örfá pör landfugla eru í eynni, en þær voru sólskríkja, maríuerla, þúfutittlingur og hrafn. Hrafnsparið, sem verpt hefur í eynni frá 2008, hefur komið upp tveimur ungum í sumar. Laupur þeirra hafði nú verið fluttur til, úr vestari gígnum og yfir í niðurfall þar skammt frá. Varp máfa virðist hafa gengið vel í eynni og hafði sílamáf fjölgað umtalsvert frá fyrra ári. Svartbakar virðast hafa orpið snemma í ár og voru ungar þeirra ýmist orðnir fleygir eða við það og höfðu jafnvel yfirgefið eyna. Talning hreiðra máfa við fasta mælireiti, sem fyrst var gerð 2003, gaf skírt til kynna fjölgun máfanna eftir lægð undanfarin tvö ár. Gæti þetta bent til að betur ári nú hjá sjófuglum í Vestmannaeyjum.

Sílamáf vegnar vel í eynni þetta sumarið og gætti umtalsverðrar fjölgunar. Ljósm. Erling Ólafsson.

Breytingar á strönd

Lítið lát virðist á sjávarrofi í Surtsey. Talsverðar breytingar hafa orðið á norðurtanganum og hömrum á vesturhluta eyjarinnar frá síðasta ári. Á tanganum stækkar vik það sem brim hefur rofið í sjávarkambinn að vestan á undanförnum árum. Þar er tekið að brjóta af tungu Stromphraunsins sem kom í ljós við flæðarmál sumarið 2011. Við lok Surtseyjargossins árið 1967 var hraunið um hálfan kílómeter frá strönd. Surtsey 2012: Strandlína tangans hefur færst umtalsvert inna síðastliðinn vetur og er Stromphraunið sem fyrst sást örla fyrir 2011 komið mun betur í ljós
Surtsey 2012: Hraunstapi við suðvesturbjörgin var landfastur höfði 2011
Strandlína tangans hefur færst umtalsvert inna síðastliðinn vetur og er Stromphraunið sem fyrst sást örla fyrir 2011 komið mun betur í ljós. Ljósm. Erling Ólafsson.
Hraunstapi við suðvesturbjörgin var landfastur höfði 2011. Ljósm. Erling Ólafsson.

Leiðangursmenn

Þátttakendur frá Náttúrufræðistofnun Íslands voru þeir Borgþór Magnússon, leiðangursstjóri, Sigurður H. Magnússon og Erling Ólafsson; Bjarni Diðrik Sigurðsson og Niki Leblans frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Þórdís Vilhelmína Bragadóttir frá Umhverfisstofnun. Landhelgisgæslan annaðist flutning leiðangursmanna til og frá eynni.

Leiðangursmenn í Surtsey 2012, talið frá vinstri: Erling Ólafsson, Sigurður H. Magnússon, Niki Lebans, Þórdís V. Bragadóttir, Bjarni Diðriki Sigurðsson og Borgþór Magnússon. Ljósm. Erling Ólafsson.