Sinubruni í landi Jarðlangsstaða við Langá á Mýrum

28.05.2010
Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands hafa kannað umfang og útbreiðslu sinubrunans sem varð í landi Jarðlangsstaða 26. maí 2010. Alls brunnu 13,2 ha af algrónu landi. Mestur hluti svæðisins var vaxinn allt að þriggja metra háu birkikjarri. Flatarmál þess er samtals 8,6 ha sem eru tveir þriðju hlutar svæðisins sem varð eldinum að bráð. Votlendið sem brann er 3,3 ha að flatarmáli en það er aðallega framræstur þýfður klófífuflói. Graslendið sem brann er 1,3 ha að flatarmáli.
Kort sem sýnir staðsetningu sinubrunans við Jarðlangsstaði.


Gróðurkort sem sýnir sinubrunann við Jarðlangsstaði.


Sinubruni við Jarðlangsstaði 26. maí 2010 Sinubruni við Jarðlangsstaði 26. maí 2010
Á brunasvæðinu í landi Jarðlangsstaða brunnu 13 ha algróins lands. Mestur hluti þess er vaxið birkikjarri í deigulandi en inn á milli er votlendi. Ljósm. Kristbjörn Egilsson 27. maí 2010. Í votlendinu sem brann var mikill eldsmatur. Í mýrinni má sjá kolaða smárunna, einkum lágvaxið birki, fjalldrapa og gulvíði. Einnig var þar krækilyng og bláberjalyng. Ljósm. Kristbjörn Egilsson 27. maí 2010.


Sinubruni við Jarðlangsstaði 26. maí 2010 Sinubruni við Jarðlangsstaði 26. maí 2010
Í mosavöxnu votlendinu brann nær allur mosi þar sem þurrast var í þúfnakollum, en barnamosinn sem er mjög blautur sviðnaði einungis. Ljósm. Kristbjörn Egilsson 27. maí 2010. Hávaxnasta birkið á brunasvæðinu er á þriðja metra. Birkistofnarnir eru víða sviðnir og jafnvel kolaðir þeim megin sem eldurinn barst yfir svæðið. Áhugavert verður að fylgjast með hvort trén hafa þolað hitann af eldinum, en það mun koma í ljós strax í sumar. Ljósm. Kristbjörn Egilsson 27. maí 2010.