Mosabruninn við Helgafell

24.07.2009

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar hafa kannað svæðið þar sem eldur kom upp í mosavöxnu hrauni í landi Hafnarfjarðar þann 22. júlí. Farið var með brunasvæðinu og útlínur þess kortlagðar. Svæðið, sem er um tvo km austur af Helgafelli, liggur við Selvogsgötu þar sem hún fer um Þríhnúkahraun. Líklegt er að eldsupptök megi rekja til glóðar frá tóbaki göngumanns sem hefur átt leið um götuna. Bruninn er lítill en heildarflatarmál svæðisins reyndist vera tæpur hálfur hektari (4345 m2). Hraunið er mjög úfið þar sem eldurinn kom upp og hefur hann því breiðst fremur hægt um það. Slökkvistarf tókst jafnframt vel og skipti þar sköpum dreifing vatns úr þyrlu yfir svæðið.


Kort af brunasvæðinu og næsta nágrenni þess. Teikning: Anette Th. Meier.

Í hraununum austan við Helgafell eru víðáttumiklar mosaþembur sem myndaðar eru af mosanum hraungambra (Racomitrium lanuginosum). Mosaþemban þornar upp í þurrkum og getur orðið eldsmatur standi þeir lengi eins og þetta nýjasta dæmi sýnir. Nauðsynlegt er að fara varlega með eld á svæðum sem þessum í þurrkatíð. Eldurinn austan við Helgafell brenndi aðallega mosaþembu í hrauninu en einnig sviðnaði mjór kragi af lyngi við hraunjaðarinn.


Austurjaðar brunasvæðisins Mosaþemban á hrauninu er illa farin eftir eldinn og víða brunnin niður í grjót
Austurjaðar brunasvæðisins þar sem líklegt er að eldurinn hafi komið upp við Selvogsgötu. Húsfell er að baki. Ljósm. Kristbjörn Egilsson. Mosaþemban á hrauninu er illa farin eftir eldinn og víða brunnin niður í grjót. Ljósm. Borgþór Magnússon.
Brunnin mosaþemba á hrauninu og lynggróður við jaðar þess Mörk brunans í mosaþembunni
Brunnin mosaþemba á hrauninu og lynggróður við jaðar þess. Helgafell er að baki. Ljósm. Kristbjörn Egilsson. Mörk brunans í mosaþembunni. Ljósm. Borgþór Magnússon.

Þess má geta hér að í mosabruna sem varð á Miðdalsheiði sumarið 2007 brunnu 9 hektarar. Þar var um slétt heiðaland með mosaþembu að ræða og breiddist eldurinn þar mun hraðar út.

Eftir sinueldana miklu á Mýrum árið 2006 hefur Náttúrufræðistofnun Íslands hafið og hvatt til skipulegrar skráningar og kortlagningar á svæðum þar sem gróðureldar koma upp hér á landi.