Listi yfir allar blómplöntur og byrkninga á Íslandi - Nýtt Fjölrit komið út

11.09.2008

Íslenskt Plöntutal, Blómplöntur og byrkningar eftir Hörð Kristinsson er komið út og er þetta 51. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar. Ritið inniheldur allar tegundir blómplantna og byrkninga sem taldar eru til hinnar villtu íslensku flóru í dag, samtals 489 tegundir.

Smellið á mynd til að fá PDF-skjal.


Plöntutalið nær yfir rúmlega 100 ára tímabil, þ.e. frá því að undirbúningur við 1. útgáfu Flóru Íslands hófst í lok 19. aldar og fram á nútíma. Markmið listans er bæði að skrá villtar plöntur sem finnast í náttúru Íslands og að halda til haga öllum heimildum um slæðinga sem einhvern tíma hafa verið skráðir á þessu tímabili, hvort sem þeir finnast í dag eða ekki.

Nafngiftir í Íslensku Plöntutali eru einkum miðaðar við 7. útgáfu af norsku flórunni sem kennd er við J. Lid, eftir Reidar Elven. Fyrirhugað er að viðhalda þessum lista í framtíðinni á http://floraislands.is/ og uppfæra hann reglulega.

Mynd á forsíðu vefsins er af Maríulykli, Primula stricta, sem finnst aðeins á nokkru svæði frá Hjalteyri og inn fyrir botn Eyjafjarðar. Myndina tók Hörður Kristinsson.

Rétt er að benda á Plöntuvefsjá Náttúrufræðistofnunar, sem geymir frekari upplýsingar um plöntur listans.

Hægt er að nálgast rafræna útgáfu af Fjölritinu (PDF-skjal) með því að smella á myndina. Einnig er hægt að panta fjölritin símleiðis í síma 5900500 eða með tölvupósti. Fjölrit 51 kostar kr. 1.700.

Eldri útgáfur af Fjölriti Náttúrufræðistofnunar

Ritstjóri: Margrét Hallsdóttir