Vatnajökulsþjóðgarður

Svæðið er tilnefnt vegna vistgerða á landi, ferskvatnsvistgerða, fugla og sela.

Vatnajökulsþjóðgarður á Íslandskorti
Heiðagæsir í fjaðrafelli á Eyjabökkum
Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson

Eyjabakkar í Vatnajökulsþjóðgarði.

Mörk

Mörk svæðisins eru þau sömu og Vatnajökulsþjóðgarðs, ná yfir allan jökulinn og stór svæði umhverfis.

Stærð

14702,6 km2

Hlutfall lands: 98%
Hlutfall fjöru: <1%
Hlutfall sjávar: <1%
Hlutfall fersks vatns: 1%

Svæðislýsing

Mikið af jökullausa landinu eru auðnir en við norðausturjaðarinn eru mikil votlendi, þar á meðal Eyjabakkar og Vesturöræfi, sitthvoru megin Snæfells. Eins eru gróðurvinjar allvíða með talsverðu fuglalífi. Landselur liggur í látrum við ósa Fjallsár og Breiðár. Ferðamennska er stunduð víða sem og veiðar á fuglum og hreindýrum.

Forsendur fyrir vali

Í Vonarskarði er litríkt jarðhitasvæði. Jarðhitavistgerðin fjallahveravist einkennir svæðið en einnig er hveraleirsvist til staðar. Fjöldi jarðhitalækja er á svæðinu og er fjölbreytni þeirra með tilliti til efna- og eðlisþátta mikil sem endurspeglast í lífríki þeirra. Töluvert er af yfirborðsvatni, sem er sjaldgæft á háhitasvæðum. Við Gæsavötn eru kaldar lindir. Fjölbreytileiki smádýra í þeim er mikill og greinilegt að frumframleiðni er mikil. Áhugavert er að lindirnar koma upp bæði undan hrauninu og ofan á því.

Mikið heiðagæsavarp er í sumum votlendum og gróðurvinjum, einkum umhverfis Snæfell og telst svæðið í heild alþjóðlega mikilvægt fyrir heiðagæsir, bæði sem varpland og fyrir geldfugla í fjaðrafelli, þá aðallega á Eyjabökkum. Í Vatnajökulsþjóðgarði eru þekkt 15 fálkaóðul og á Breiðamerkursandi er aðalhelsingjavarp landsins og mikið skúmsvarp til skamms tíma, hvorutveggja alþjóðlega mikilvægt.

Við ósa Fjallsár og Breiðár eru umfangsmikil landselslátur þar sem hafa verið yfir 1600 selir og allt að 49,5% allra landsela Suðurlands. Landsel á svæðinu hefur fækkað um 78,3% frá árinu 1980.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Land Fjallahveravist 0,05 21
Land Hveraleirsvist 0,04 9
Ferskvatn Jarðhitalækir    
Ferskvatn Kaldar lindir <0,01 1

Fuglar

Forgangstegundir varpfugla
Tegund  Árstími  Fjöldi (pör) Ár  % af íslenskum stofni
Heiðagæs Varp 2.000 2010 2
Helsingi  Varp *um 1.000 2107 c. 5
Fálki Varp **15 2016 2
*Varp á Breiðamerkursandi innan þjóðgarðs eftir stækkun 2017
**Þekkt óðul

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um fuglasvæðið Vatnajökulsþjóðgarður.

Selir

Hér er um sömu tölur að ræða og birtar eru fyrir tillögusvæðið Fjallsá-Fagurhólsmýri en selalátur eru á síbreytilegum aurum og ósum Fjallsár sem liggur á mörkum svæðanna tveggja.

Tegund  Lægsti fjöldi* Hæsti fjöldi* Hæsta % af
Suðurlandsstofni 
Hæsta % af
íslenskum stofni
Núverandi % af
íslenskum stofni
Landselur 65 (1998) 1.686 (1980) 49,5 (2016) 11,7 (1980) 8,8 (2018)
*Árin 1980–2018

Ógnir  

Ferðamennska, uppbygging ferðaþjónustu í jaðri þjóðgarðs, ágengar tegundir og vatnsaflsvirkjanir.          

Aðgerðir til verndar

Svæðið var friðlýst sem þjóðgarður árið 2008 og hefur verið stækkað síðan í nokkrum áföngum. Styrkja þarf vernd vistgerða og búsvæða í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. Brýnt er að tryggja vernd sela í látrum og nærliggjandi grunnsævi þar sem fæðuöflun fer fram.

Núverandi vernd

Friðlýst svæði Flokkur friðlýsingar
Vatnajökulsþjóðgarður Þjóðgarður
Aðrar náttúruminjar Númer
Gæsavötn við Gæsahnjúk 517
Kverkfjöll og Krepputunga 613
Fagridalur og Grágæsadalur á Brúaröræfum 614
Snæfell, Vesturöræfi og Hafrahvammagljúfur 615
Eyjabakkar 616
Umhverfi Hoffellsjökuls 631
Skálafellsjökull og fjalllendi í Suðursveit 632
Steinadalur og Staðarfjall 633
Breiðamerkursandur, Jökulsárlón, jökulöldur við Kvíárjökul og Eystrihvammur 635
Heinabergsfjöll 654
Núpsstaður, Núpsstaðarskógar og Grænalón 701
Tungnafellsjökull og Nýidalur (Jökuldalur) 702
Eldgjá 706
Grænifjallgarður 760

Kortasjá

Vatnajökulsþjóðgarður í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 26. maí 2020, viðbótartillögur um seli gefnar út 3. desember 2020.