Vöktun náttúruverndarsvæða

Tímamörk

Langtímaverkefni sem hófst 2019.

Samstarfsaðilar

Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa á landinu, Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og var sett á laggirnar að frumkvæði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þetta er í fyrsta sinn sem svo margar stofnanir vinna sameiginlega að því að rannsaka og vernda náttúru landsins og móta heildræna vöktunaráætlun á landsvísu.

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Meginmarkmið verkefnisins er að setja á laggirnar heildstæða vöktunaráætlun á landsvísu til vöktunar náttúruminja á náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem eru undir álagi vegna ágangs ferðamanna. Áhersla er lögð á að vakta náttúrufarsþætti sem eru undirstaða náttúruverndargildis svæðanna, svo sem gróður, jarðminjar, fugla eða spendýr eftir því sem við á.

Vöktuð svæði

Svæðum er forgangsraðað út frá álagi af völdum ferðamanna og þau má skoða í kortasjá.

Aðferðalýsingar

Í verkefninu eru notaðar samræmdar vöktunaraðferðir og skoðaðir þættir sem svara álagi af völdum ferðamanna. Aðferðir voru gefnar út í handbók þar sem gerð er grein fyrir vöktunaraðferðum fyrir hvern náttúrufarsþátt.

Samantekt niðurstaðna

Vöktun hófst sumarið 2020 þar sem vinsæl ferðamannasvæði voru könnuð og vöktunaraðferðir prófaðar. Fyrsta úttekt á náttúruminjum var yfirleitt forkönnun. Þannig fékkst yfirlit yfir ásigkomulag svæða, valdir voru fastir myndvöktunarpunktar, svæði mynduð úr lofti og útbúin myndkort sem nýtast við kortlagningu náttúruminja. Niðurstöður forkönnunar voru hafðar til grundvallar mati á þörf á ítarlegri rannsóknum og vöktun innan viðkomandi svæðis. Í ítarlegri vöktun er meðal annars lagt mat á gróðurskemmdir og gróðureyðingu, jarðvegsrof, skemmdir á jarðminjum og jarðhitavistgerðum, vaxtarstaði ágengra plöntutegunda og sjaldgæfra plantna, hentistíga og vörðubyggingar.

Þegar niðurstöður sumarsins lágu fyrir var aðferðafræði rýnd og endurskoðuð eftir þörfum. Lagt var mat á æskilega tíðni vöktunar viðkomandi svæða. Jafnframt var bætt við svæðum sem verða vöktuð sumarið 2021. Gögnum er safnað í gagnagrunn, sem hannaður var fyrir verkefnið, og þau varðveitt hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Gögnin verða birt á vefsíðu verkefnisins og í kortasjá.

Tengiliður

Rannveig Anna Guicharnaud, verkefnisstjóri.