Lynghraunavist

L6.4

Eunis-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. E4.243 Icelandic lava field shrub heaths.

Lynghraunavist
Mynd: Starri Heiðmarsson

Lynghraunavist í Þeistareykjahrauni í Þingeyjarsýslu. Hraunið er vaxið hraungambra en með honum eru m.a. smárunnarnir krækilyng og holtasóley. Kræðufléttur og hreindýrakrókar setja einnig svip á gróður. Gróðursnið Th-20-04. – Lava field shrub heath in northeastern Iceland.

Lynghraunavist
Mynd: Starri Heiðmarsson

Lynghraunavist við ósa Ormarsár á Melrakkasléttu. Gróður hraunsins ber mikinn svip mólendis. Hraungambri er ríkjandi en með honum vaxa m.a. þursaskegg, blávingull, holtasóley, blóðberg og móasef. Gróðursnið MS-30-02. – Lava field shrub heath in northeastern Iceland.

Lýsing

Allvel gróin hraun frá nútíma, yfirleitt hallalítil apal- eða helluhraun. Allmikil þekja æðplantna, einkum lyngtegunda, og mosa (hraungambra) og fléttna. Stöðugleiki yfirborðs er misjafn, gróðurþekja er breytileg og sum staðar eru rofsár áberandi. Gróður er lágvaxinn.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af tegundum æðplantna, mjög rík af fléttum en fátæk af mosum. Af æðplöntum ríkja krækilyng (Empetrum nigrum), holtasóley (Dryas octopetala) og beitilyng (Calluna vulgaris). Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), holtasóti (Andreaea rupestris), grákólfur (Gymnomitrion corallioides) og fjallhaddur (Polytrichastrum alpinum) en algengustu fléttur eru hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula), landfræði­flikra (Rhizocarpon geographicum), fjallagrös (Cetraria islandica), fölvakarta (Porpidia melinodes) og geitanafli (Umbilicaria proboscidea).

Jarðvegur

Jarðvegur er mjög grunnur, áfoksjörð í lautum en klapparjörð á bungum og hraunhólum. Kolefnisinnihald er allhátt, einkum miðað við aðrar hraunavistgerðir, en sýrustig er frekar hátt.

Fuglar

Nokkurt fuglalíf, heiðlóa (Pluvialis apricaria), spói (Numenius phaeopus), þúfutittlingur (Anthus pratensis), steindepill (Oenanthe oenanthe) og rjúpa (Lagopus mutus).

Líkar vistgerðir

Mosahraunavist.

Útbreiðsla

Vistgerðin finnst á eldri hraunum þar sem jarðvegur hefur þykknað vegna áfoks og framvindu gróðurs. Algengust á Reykjanesskaga, Snæfellsnesi og Norðausturlandi.

Verndargildi

Miðlungs.

Lynghraunavist

Lynghraunavist er lítt útbreidd en hún finnst í 15% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 1.400 km2, óvissa nokkur, óglögg skil við mólendi. – The habitat type is uncommon in Iceland and is found within 15% of all grid squares. Its total area is estimated 1,400 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í lynghraunavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá