Mosahraunavist

L6.3

Eunis-flokkun

E4.242 Icelandic lava field moss heaths.

Mosahraunavist
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Mosahraunavist í Berserkjahrauni við Selvallavatn á Snæfellsnesi. Hraungambri er ríkjandi en af æðplöntum finnast fáar tegundir. Gróðursnið SN-55-04. – Lava field moss heath in western Iceland.

Mosahraunavist
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Mosahraunavist í Hekluhrauni á Rangárvöllum. Vel gróið hraun með hraungambra, stinnastör og krækilyngi. Gróðursnið SL-55-04. – Lava field moss heath in southern Iceland.

Lýsing

Mosagróin, gropin hraun frá nútíma, hallalítil, hellu- apalhraun. Yfirborð er að jafnaði stöðugt og lítið um lausan sand eða vikur. Heildargróðurþekja er að meðaltali mikil en er breytileg þar sem skiptast á vel grónar lægðir og minna grónar hraunbungur og drangar. Mosi er algjörlega ríkjandi í gróðurþekju, mest hraungambri sem einkennir vistgerðina. Æðplöntur eru strjálar og lítið er um fléttur. Gróður er mjög lágvaxinn.

Plöntur

Vistgerðin er fremur fátæk af æðplöntum en miðlungi rík af mosum og fléttum. Af æðplöntum er mest af krækilyngi (Empetrum nigrum), bláberjalyngi (Vaccinium uliginosum), grasvíði (Salix herbacea) og stinnastör (Carex bigelowii). Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum), tildur­mosi (Hylocomium splendens) og fjallhaddur (Polytrichastrum alpinum) en algengustu fléttur eru  hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum), fjallagrös (Cetraria islandica), hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula) og fölvakarta (Porpidia melinodes).

Jarðvegur

Er grunnur og næringarsnauður, langmest klapparjörð en áfoksjörð finnst sums staðar í lægðum. Kolefnismagn í jarðvegi er frekar hátt (neðst í mosalagi) en sýrustig frekar lágt, talsvert lægra en í öðrum hraunavistgerðum.

Fuglar

Rýrt fuglalíf, heiðlóa (Pluvialis apricaria), spói (Numenius phaeopus), þúfutittlingur (Anthus pratensis), steindepill (Oenanthe oenanthe) og rjúpa (Lagopus mutus).

Líkar vistgerðir

Hraungambravist og mosamelavist.

Útbreiðsla

Finnst einkum á ungum hraunum um sunnan- og vestanvert landið þar sem úrkoma er ríkuleg og mosavöxtur mikill, einkum á Reykjanesskaga, við Heklu og í Eldhrauni.

Verndargildi

Miðlungs.

Mosahraunavist

Mosahraunavist er lítt útbreidd en hún finnst í 14% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 1.500 km2, óvissa lítil. – The habitat type is uncommon in Iceland and is found within 14% of all grid squares. Its total area is estimated 1,500 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í mosahraunavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá

Mosinn í hrauninu – Vistgerðin mosahraunavist er í brennidepli en hún tilheyrir hraunlendi. Einnig er fjallað um moslendi og hverasvæði (sýnt í Landanum á RÚV 18.11.2018).