17. október 2018. Nýir válistar plantna, spendýra og fugla

Ester Rut Unnsteinsdóttir, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Starri Heiðmarsson

Ester Rut Unnsteinsdóttir, Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Starri Heiðmarsson

Á Hrafnaþingi 17. október næstkomandi, kl. 15:15, munu þau Ester Rut Unnsteinsdóttir, Kristinn Haukur Skarphéðinsson og Starri Heiðmarsson, starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands, kynna nýja válista en það eru skrár yfir lífverur sem eiga undir högg að sækja og byggja á viðmiðum Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, IUCN. Um er að ræða svæðisbundið mat sem miðast við þá stofna sem finnast hér á landi eða innan  efnahagslögsögunnar.

Metnar voru 85 tegundir æðplantna og eru 66 þeirra á válista, þar af er ein útdauð á Íslandi, átta tegundir eru í bráðri hættu og sjö tegundir í hættu. Nokkrar tegundir eru nýjar á válista og hafa þær flestar fundist hér nýlega.

Yfir 90 tegundir fugla voru metnar og er 41 þeirra á válista. Ein þeirra er útdauð í heiminum (geirfugl), þrjár eru útdauðar sem varpfuglar á Íslandi, þrjár eru í bráðri hættu, 11 í hættu og 22 í nokkurri hættu.

Válisti spendýra birtist nú í fyrsta sinn og er hann unnin í samvinnu við sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar, þau Gísla Víkingsson (hvalir) og Söndru Granquist (selir). Yfir 50 tegundir land- og sjávarspendýra hafa fundist hér og voru flestar þeirra ekki metnar þar sem þær voru innfluttar, flökkutegundir eða á jaðri útbreiðslu sinnar. Af þeim 18 tegundum sem voru metnar eru fjórar á válista. Ein tegund er útdauð við Ísland (sandlægja), ein er í bráðri hættu (landselur), ein í hættu (útselur) og ein í nokkurri hættu (steypireyður).

Nánari upplýsingar veita Ester Rut Unnsteinsdóttir (spendýr), Kristinn Haukur Skarphéðinsson (fuglar) og Starri Heiðmarsson (æðplöntur).

Fyrirlesturinn á Youtube