Fjalldalafífill (Geum rivale)

Mynd af Fjalldalafífill (Geum rivale)
Mynd: Hörður Kristinsson
Fjalldalafífill (Geum rivale)
Mynd af Fjalldalafífill (Geum rivale)
Mynd: Hörður Kristinsson
Fjalldalafífill (Geum rivale)

Útbreiðsla

Algengur en þó fátíðari suðaustanlands en annars staðar (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Rótin inniheldur ýmis ilm- og bragðefni sem þóttu góð í mat og drykk, hún var kölluð engjanegulrót. Fjalldalafífill hefur einnig verið nefndur fjalldæla, biskupshattur og sólsekvía. Áður fyrr var því trúað að það festi tennur og styrkti tannhold ef jarðrenglur voru tuggðar (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Plantan hefur verið notuð til lækninga en jarðrenglurnar þykja t.d. góðar við niðurgangi. Fjalldalafífill er raunar góður við lystarleysi og lélegri meltingu almennt auk þess sem hann þykir styrkjandi og er talinn góður við þrálátu lungnakvefi og stíflum í ennisholum (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Fjalldalafífill inniheldur m.a. bitur efni, barksýrur, flavona og ilmolíur á borð við ágenól (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Hann vex í mólendi, einkum grasríkum móum, bollum, hvömmum og giljum þar sem ekki er mjög þurrt (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Lýsing

Meðalhá planta (20–40 sm) með stórum, rauðbleikum, drúpandi blómum. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stöngulblöðin þrískipt, með tenntum flipum og axlablöðum við fótinn, stofnblöðin stilklöng, fjöðruð, bilbleðótt, með stórum djúpflipuðum endableðli. Smáblöðin gróftennt, loðin. Jarðstöngullinn gildur (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru stór, 1,5–2 sm í þvermál, oftast fimmdeild en stundum ofkrýnd. Krónublöðin í fyrstu gulhvít en síðan bleikrauð með dökkum æðum, naglmjó og frambreið, buguð í endann. Bikarblöðin dökkrauð, hærð, þríhyrnd, mjóir og útréttir utanbikarflipar á milli þeirra. Margir fræflar með gular frjóhirslur. Margar frævur með loðinni trjónu (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Trjónur frævanna lengjast mjög við aldinþroskun þannig að hvert aldin er með langri, loðinni trjónu sem festir fræin við flest sem snertir þau, svo sem föt eða feld dýra (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðsla - Fjalldalafífill (Geum rivale)
Útbreiðsla: Fjalldalafífill (Geum rivale)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |