Jafnréttisáætlun

Markmið

Jafnréttisáætlun þessi er sett í þeim tilgangi að tryggja jafnrétti kynjanna í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í henni er kveðið á um þau réttindi sem tilgreind eru í 19.-22. gr. laganna.

Laus störf eru óháð kyni

Öll laus störf skulu standa jafnt konum sem körlum til boða og teljast því hvorki kvenna- né karlastörf. Þegar ráðið er í ný störf skal m.a. tekið tillit til kynjahlutfalls þannig að ekki halli á annað kynið.

Launajafnrétti

Konur og karlar skulu fá sömu laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, samkvæmt skilyrði 19. gr. jafnréttislaga. Þau skulu einnig njóta sömu þóknana, beinna og óbeinna, hvort heldur er með hlunnindum eða öðrum hætti. Með sömu launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Komi í ljós launamunur á jafn verðmætum og sambærilegum störfum skal hann leiðréttur ef ekki er hægt að rökstyðja hann á málefnalegum grundvelli gildandi stofnanasamninga.

Endurmenntun, símenntun og starfsþjálfun

Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfstengdrar þjálfunar til þess að auka þekkingu og hæfni, m.a. vegna faglegrar þróunar og nýjunga í starfi.

Samræming fjölskyldulífs og vinnu

Starfsfólki býðst að skila vinnuframlagi með sveigjanlegum vinnutíma samkvæmt gildandi viðmiðum og reglum. Skipulagning vinnu og vinnutíma þarf að vera með þeim hætti að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og hagsmuna stofnunarinnar. Starfsmenn skulu eiga kost á hlutastörfum eða annarri hagræðingu þar sem því verður við komið. Tekið skal tillit til mismunandi aðstæðna, s.s. umönnunar barna, foreldra eða annarra náinna skyldmenna. Stofnunin hvetur verðandi feður og mæður til að nýta sér fæðingarorlof.

Kynferðisleg og kynbundin áreitni og einelti

Kynferðisleg eða kynbundin áreitni, einelti eða önnur ótilhlýðileg háttsemi er ekki liðin hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í Starfsmannahandbók eru leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stjórnendur ef bregðast þarf við vegna þessara mála.

Kynjasamþætting

Náttúrufræðistofnun Íslands leitast við að hafa sjónarmið um jafnrétti og jafna stöðu kynjanna í hávegum í allri starfsemi sinni, þ. á m. við hvers kyns stefnumótun og áætlanagerð.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |