Auravist

L4.2

Eunis-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. H5.351 Icelandic braided river plains.

Auravist
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Auravist á Skeiðarársandi. Allvel gróinn, mosavaxinn áraur með loðvíði, blóðbergi og beitilyngi. Gróðursnið SK-30-02. – Braided river plain in southern Iceland.

Auravist
Mynd: Starri Heiðmarsson

Auravist við ána Bröndu í Djúpadal í Eyjafirði. Allvel gróin aurkeila með gamburmosum, kræðufléttum, blóðbergi, túnvingli o.fl. tegundum. Gróðursnið EY-63-01. – Braided river plain in northern Iceland.

Lýsing

Fremur þurrar, hallalitlar áreyrar og framburðarsléttur með jökulám og dragám. Yfirborð smáöldótt og mótað af vatnsrennsli þar sem skiptast á allvel grónir farvegir og berari hryggir. Yfirborð er frekar stöðugt, sums staðar nokkuð grýtt. Land með mjög lágvöxnum frumherjagróðri, gamburmosar ríkjandi en strjálingur af æðplöntum og fléttum.

Plöntur

Vistgerðin er allrík af tegundum, einkanlega æðplöntum en af þeim eru blóðberg (Thymus praecox ssp. arcticus) og krækilyng (Empetrum nigrum)ríkjandi. Algengastir mosa eru melagambri (Racomitrium ericoides), hraungambri (R. lanuginosum), melhöttur (Pogonatum urnigerum) og hlaðmosi (Ceratodon purpureus) en af fléttum vaxtarga (Lecanora polytropa), skeljaskóf (Placopsis gelida), dvergkarta (Tremolecia atrata), melakræða (Cetraria muricata), skarlatbikar (Cladonia borealis) og grábreyskja (Stereocaulon alpinum).

Jarðvegur

Jarðvegur er þunnur, eyrarjörð, melajörð eða sandjörð með mjög lágt kolefnisinnihald og fremur hátt sýrustig. Jarðvegur er grófur og er rakaheldni lítil. Raki hans ræðst því mikið af grunnvatnsstöðu og úrkomu.

Fuglar

Fremur rýrt fuglalíf, heiðlóa (Pluvialis apricaria), spói (Numenius phaeopus), sandlóa (Charadrius hiaticula), kjói (Stercorarius parasiticus), í stórgrýttu landi snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) og steindepill (Oenanthe oenanthe). Skúmur (Catharacta skua) á svæðum nærri sjó.

Líkar vistgerðir

Eyravist og hraungambravist.

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum, en mest á framburðarsléttum sem eru að gróa upp, útbreiddust á Suðurlandi frá Markarfljóti austur í Lón.

Verndargildi

Miðlungs.

Auravist

Auravist er allútbreidd en hún finnst í 23% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 2.000 km2, óvissa er mikil, einkum milli líkra vistgerða. – The habitat type is fairly common in Iceland and is found within 23% of all grid squares. Its total area is estimated 2,000 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í auravist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá