30. mars 2016. Borgþór Magnússon: Vöktun á gróðri og ástandi beitilands

Borgþór Magnússon

Borgþór Magnússon

Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Vöktun á gróðri og ástandi beitilands“  á Hrafnaþingi miðvikudaginn 30. mars kl. 15:15. Meðhöfundur er Járngerður Grétarsdóttir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Frá árinu 1997 hefur staðið yfir vöktun á gróðri og ástandi haga á Norður- og Suðurlandi. Lagðir voru út 100 fastir mælireitir í heimalöndum og afréttum, ástand lands metið, gróður greindur og mældur og yfirlitsmyndir teknar af hverjum reit. Verkefnið, sem er unnið í samstarfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands, beindist í upphafi að landi þar sem hrossabeit var mikil og nýting sumstaðar yfir hóflegum mörkum. Mörg vöktunarsvæðanna eru einnig nýtt til sauðfjárbeitar. Árið 2005 voru reitirnir teknir út í annað sinn og kom þá í ljós að víða hafði orðið mikil breyting á landi, gróska hafði aukist, dregið úr rofi og ástand batnað. Þetta var rakið til hlýnunar loftslags og bættrar meðferðar beitilands.

Sumarið 2015 var vitjað um reitina í þriðja sinn og þeir teknir út á sama hátt og árið 2005. Niðurstöður benda til að talsverðar breytingar hafi orðið á gróðri og ástandi lands á þessu tímabili en misjafnar milli svæða. Þær verða kynntar nánar í fyrirlestrinum og bornar saman við niðurstöður rannsókna á breytingum á grósku landsins alls undanfarna áratugi sem lesa má úr gögnum frá gervitunglum. Jafnframt verður rætt um notagildi fastra mælireita til langtímarannsókna á gróðri og mats á ástandi beitilanda en þeirri aðferð hefur lítt verið beitt hér á landi.

Fyrirlesturinn á Youtube

Mælireitur, Mælireitir í högum á Norður- og Suðurlandi

Fastir mælireitir í högum á Norður- og Suðurlandi sem lagðir voru út 1997–1998 og endurmældir 2005 og 2015. Reitirnir liggja í allt að 600 m h.y.s. á Norðurlandi.

Mælireitur í grösugum haga í góðu ástandi í Skagafirði
Mynd: Borgþór Magnússon

Mælireitur í grösugum haga í góðu ástandi í Skagafirði. Ljósm. Borgþór Magnússon, 21. ágúst 2015.