25. febrúar 2004. Ólafur Karl Nielsen: Áhrif skógræktar á fuglalíf

Ólafur Karl Nielsen vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 25. febrúar 2004. 

SKÓGVIST er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Skógræktar ríkisins og Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins. Megin tilgangur þessa verkefnis er að lýsa þeim breytingum sem verða í vistkerfinu er skógur vex upp á skóglausu landi. Rannsóknasvæðið eru lerki- og birkiskógar austur á Héraði og aðferðafræðin byggir á því að bera saman vistkerfi á skóglausu landi við vistkerfi í misgömlum skógum.

Einn þáttur þessa verkefnis snýst um að lýsa þeim breytingum sem verða á fuglafánunni og það er umfjöllunarefni fyrirlestrarins. Fuglatalningar voru gerðar á skóglausu landi, í gömlum birkiskógi og í lerkiskógum á þremur aldurskeiðum, þ.e. 7-10 ára gömlum lerkiskógum (meðalhæð trjáa 1,4 m), 17-23 ára gömlum (meðalhæð 4,5 m) og 33-47 ára gömlum (meðalhæð 11,8 m).

Tvennskonar aðferðum var beitt við talningarnar svokölluðum punkttalningum annars vegar og hins vegar svokölluðum sniðtalningum. Í erindinu verður fjallað um nákvæmni talninganna, samsetningu fuglafánunnar og hvort og hvernig hún breytist er land klæðist skógi.

Hrossagauksungar í birkiskógi
Mynd: Ólafur K. Nielsen

Nýklaktir hrossagauksungar í hreiðri á botni birkiskógar. Hrossagaukurinn er önnur tveggja íslenskra tegunda sem spannar allar landgerðir frá opnu landi yfir í birkiskóg og elsta lerkiskóginn. Hin tegundin er þúfutittlingur.

Gamall birkiskógur við Hallormsstað
Mynd: Ólafur K. Nielsen

Gamall birkiskógur í landi Hallormsstaðar. Þessi skógur er ósnortinn og því heppilegur til rannsókna, en hann hefur ekki verið hogginn í meira en heila öld.

Fuglatalningamaður
Mynd: Ólafur K. Nielsen

Fuglatalningamaður, Halldór Walter Stefánsson, að störfum í um 20 ára gömlum lerkiskógi, sem aldrei hefur verið grisjaður.