Tjarnasnúðsætt (Planorbidae)

Almennt

Ættin er tegundaríkasta ætt vatnasnigla og er hún dreifð um heim allan, jafnt meginlönd sem eyjar litlar og stórar. Heildarfjöldi tegunda liggur ekki fyrir en í Evrópu eru um 60 tegundir skráðar.

Tegundirnar lifa í vötnum og tjörnum og getur fjöldi snigla orðið gríðarlegur í vatnagróðrinum. Sennilega nærast þeir einkum á þörungum. Eggjum er verpt í klasa á plöntunum.

Kuðungurinn er sérstakur, flatur því hann er undinn í einu plani. Vindingurinn mjókkar frá opinu þannig að miðja kunungsins verður inndregin í stað þess að mynda strýtu. Þetta form hefur leitt til erlendra nafngifta eins og wheel snails, ramshorn snails, sem eru lýsandi. Fræðiheitið Planorbis er einnig lýsandi. Þegar snigill skríður hallast kuðungurinn yfir til vinstri. Öndunarop og kynop eru þeim megin á líkamanum. Fótur og höfuð sem koma út undan skelinni eru tiltölulega lítil en hins vegar eru grannir þráðlaga fálmarar afar langir. Lungað er stór poki sem sést vel í gegnum  skelina þegar hann er fullur lofti. Til eru tegundir sem hafa blóðrauða (hemóglóbín) sem bindur súrefni og er það einstakt meðal lindýra. Sumar tegundir þroska í sér lirfustig sníkjudýra.

Í íslenskum vötnum finnast aðeins tvær tegundir tjarnasnúðsættar.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |