Vatnabobbaætt (Lymnaeidae)

Almennt

Ættin er útbreidd um heim allan. Upplýsingar um fjölda tegunda í heiminum liggja ekki fyrir en í Evrópu eru 23 tegundir skráðar, öllu fleiri í Norður-Ameríku eða 75 í það minnsta

Sniglar vatnabobbaættar lifa í grunnum vötnum og tjörnum, einnig í hægrennandi straumvatni og nærast þeir þar einkum  á þörungum og rotnandi leifum. Þeim farnast best í kalkríku vatni.

Skel kuðungsins er einsleit brún á lit. Grunnvindingur er yfirleitt belgmikill og trjónan mishá, oftast keilulaga, stundum löng og oddmjó. Vindingur kuðungsins er hægrisnúinn þegar horft er á hann neðan frá (opið upp). Sumar tegundir geta orðið æði stórvaxnar eða allt að 7 cm. Tegundir í hitabeltislöndum eru almennt smávaxnari en tegundir utan hitabeltisins. Fálmarar eru flatir þríhyrnulaga hliðstæðir á höfðinu, ekki þráðlaga eins og algengast er hjá sniglum. Eitt auga er staðsett við rót hvors fálmara. Höfuðið sjálft myndar einnig samskonar hliðstæða flipa.

Sniglarnir anda með lungum og verða því að koma upp á yfirborðið stöku sinnum til að sækja loftbólur og fylla lungun, en þeir taka einnig til sín súrefni í gegnum yfirborðið og geta því verið lengi undir vatnsborði. Sumum tegundum er ekki nauðsynlegt að sækja loft. Sniglarnir skilja eftir sig slímbrautir í vatninu sem þeir nota meðal annars til að skríða eftir upp að yfirborði til loftskipta.

Sniglarnir eru tvíkynja og eru kynopin aðskilin ólíkt flestum landsniglum. Þegar nýr pollur er numinn geta þeir stundað sjálfsfrjóvgun  til að ná upp fjölda í stofninum með hraði.

Í hitabeltislöndum kunna sniglar þessir að bera með sér alvarlegar sýkingar í menn og skepnur, til dæmis flatorma og igður.

Á Íslandi finnast tvær tegundir tjarnabobbaættar. Önnur er algeng um land allt og stundum í miklum fjölda í grunnum tjörnum og pollum, hin öllu dreifðari.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |