Pardussnigilsætt (Limacidae)

Almennt

Heimkynni ættarinnar eru í vestanverðri Evrasíu. Hún er ekki tegundarík. Í Evrópu eru 60 tegundir skráðar, flestar af ættkvíslinni Limax.

Í ættinni eru meðalstórar til mjög stórvaxnar skellausar tegundir. Ef stærð snigils er metin út frá lengd á skriði þá hýsir ættin stærstu landsnigla sem um getur, en þegar teygist úr þeim stærstu getur lengdin náð 20 cm. Þegar sniglarnir skríða lengist og mjókkar bolurinn verulega en þjappast svo saman í aðeins hluta lengdarinnar þegar þeir stoppa. Stundum er skríðandi sniglunum líkt við snáka. Aftur eftir bakinu liggur upphækkaður kjölur og er bakið því ekki ávalt eins og hjá sniglum af svartsnigilsætt. Liturinn er breytilegur, jafnvel innan tegunda. Sjaldnast eru sniglarnir einlitir, öllu heldur með röndum og óreglulegum flekkjum, grunnlitur gulur, grár eða dökkur. Kápan sem liggur yfir framhlutanum nær yfir um þriðjung lengdarinnar nema á skriði þegar mest dregst úr afturhlutanum. Öndunarop er á kápunni hægra megin nálægt afturjaðri.

Hvorki stórvaxnar tegundir né smávaxnar eru til mikils skaða því þær nærast fyrst og fremst á ýmsu rotnandi, plöntuleifum og skít, sveppum og þörungum. Geta einnig lagst á egg annarra smádýra jafnvel lirfur og fullorðin smádýr.

Sumar tegundir hafa svo skrautlegt mökunaratferli að því verður tæpast lýst með örðum.

Á Íslandi finnast 2 tegundir þessarar ættar. Önnur er nýlegur landnemi, risi mikill sem fjölgar með hverju árinu sem líður.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |