Svartsnigill (Arion ater)

Svartsnigill - Arion ater
Mynd: Erling Ólafsson

Svartsnigill (Arion ater), 70 mm. ©EÓ

Svartsnigill - Arion ater
Mynd: Erling Ólafsson

Svartsnigill (Arion ater), hvítt afbrigði, 70 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

N- og M-Evrópa, Þýskaland, Skandinavía, Bretland, einnig í norðvestanverðri N-Ameríku og innfluttur til Nýja-Sjálands.

Ísland: Láglendi um land allt en algengastur á sunnan- og austanverðu landinu.

Lífshættir

Svartsnigill er rakasækinn, finnst t.d. í graslendi nálægt sjó, gróðurríkum grasbrekkum, gjarnan mót suðri, skjólgóðum hraungjótum og húsagörðum. Hann er alæta sem leggst m.a. á hræ, sveppi og gróður, bæði lifandi og rotnandi, en veldur ekki teljandi skaða í garðrækt. Svartsnigill verpir á köldum, rökum stöðum í gróðurþykkni, einnig í safnhauga. Hann þykir ekki eftirsóknarverð fæða fyrir önnur dýr vegna þess að slímið sem hann gefur frá sér virðist síður en svo lystaukandi. Svartsniglar eru þó stundum étnir, m.a. af nagdýrum og fuglum.

Almennt

Sums staðar sunnanlands má rekast á umtalsverðan fjölda svartsnigla þar sem skilyrði eru þeim hagstæð. Má t.d. nefna grasbrekkur og dali upp af Hveragerði og með strandlengjunni í Hraunum vestan Straumsvíkur. Þó sniglarnir hafi hægt um sig að degi til eru þeir oft áberandi í grasinu enda stórir og svartir. Þeir eru meira á stjái að nóttu til.

Þegar svartsnigill er snertur eða tekinn upp dregur hann sig saman í hálfkúlulaga form og tekur að sveigja sig til beggja hliða á víxl. Þetta atferli er ekki þekkt hjá skyldum tegundum og gert til að rugla rándýr í ríminu.

Svartsnigill getur frjóvgað sig sjálfur en kýs þó að makast við aðra einstaklinga. Á seinni árum hefur komið í ljós að svartsnigill getur auk þess verið fjöllyndari en góðu hófi gegnir. Hann á það nefnilega til að makast við spánarsnigill og geta af sér afkvæmi með honum sem hafa reynst harðger og kuldaþolin.

Algengt er að svartsniglar hérlendis nái um 8 cm lengd en þeir verða mun stærri erlendis. Þeir verða þó kynþroska löngu áður en fullum vexti er náð. Þeir eru að öllu jöfnu biksvartir á lit og gljáandi af slímmynduninni. Þó eru þekkt í nágrannalöndunum önnur litarafbrigði, þ.e. brúnleitir og jafnvel nær hvítir. Sumarið 2009 sáust allnokkrir hvítir sniglar í garði í Húsahverfi í Reykjavík sem líklega voru svartsniglar frekar en spánarsniglar.

Svartsnigill (Arion ater) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Svartsnigill (Arion ater) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Quick, H.E. 1960. British slugs (Pulmonata; Testacellidae, Arionidae, Limacidae). Bulletin of The British Museum (Natural History), Zoology 6: 1–226.

Wikipedia. Black slug http://en.wikipedia.org/wiki/Black_slug [skoðað 27.1.2010].

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |