Staraþéla (Pachynematus vagus)

Starþéla - Pachynematus vagus
Mynd: Erling Ólafsson
Starþéla. 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa austur til Rússlands og Litlu-Asíu; N-Ameríka.

Ísland: Fundin dreift á láglendi í öllum landshlutum.

Lífshættir

Starþéla er e.t.v. ekki við eina fjölina felld í fæðuvali en tiltölulega lítið er þó um það vitað. Lirfur hafa fundist á víði (Salix) og störum (Carex). Það má rekast á fullorðnu þélurnar við ýmsar aðstæður, í víðikjarri, gras- og blómlendi, einnig í raklendi. Starþéla flýgur í júní og lirfur hafa fundist í júlí og fram í ágúst. Að öllum líkindum liggur hún vetrardvalann á púpustigi.

Almennt

Þó útbreiðsla starþélu sé töluverð þá telst hún afar fágæt hér á landi. Það er hending að rekast á hana. Af þeim sökum er mest lítið um lífshættina vitað. Hún er dæmigerð þélutegund af ættinni Tenthredinidae, svört að sjá að ofan, með tiltölulega breiða og flata, reyklitaða vængi sem vita út frá bolnum aftanverðum þegar hún situr. Gulbrúnar vængæðar eru mjög skýrar. Neðra borð afturbols er gult og fætur að mestu gulir nema stofnliðir að mestu svartir, nema í endann, og lærliðir með með dökkum kámum.

Staraþéla (Pachynematus vagus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Staraþéla (Pachynematus vagus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Pachynematus vagus. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=355084 [skoðað 18.4.2012]

Petersen, B. 1956. Hymenoptera.. Zoology of Iceland III, Part 49–50. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 176 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |