Rimamýravist

L8.7

Eunis-flokkun

D3.2 Aapa mires.

Rimamýravist á Miklumýrum á Hrunamannaafrétti.
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Rimamýravist á Miklumýrum á Hrunamannaafrétti. Þvert á halla mýrarinnar liggja langir þúfnarimar með flóalægðum á milli. – Aapa mire in southern highlands.

Rimamýravist á Mosfellsheiði.
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Rimamýravist á Mosfellsheiði. Fjalldrapi á rimum en tjarnastör og vetrarkvíðastör í lægðum. Gróðursnið RN-68-02. – Aapa mire in southwestern Iceland.

Lýsing

Víðáttumiklar mýrar til heiða með áberandi mynstri langra þúfnagarða (rima) og forblautra flóalægða á milli sem liggja þvert á eða í lítilsháttar sveig undan landhalla. Pollar og smátjarnir í lægðum. Vatn á að mestu uppruna af hærra landi í kring, sígur fram undan halla, er fremur steinefnaríkt og eru mýrarnar því nokkuð frjósamar. Á rimum vex mó- og deiglendisgróður en flóagróður í lægðum. Land er mjög vel gróið og gróður hávaxinn. Æðplöntuþekja er fremur gisin, mosi mikill í sverði og ríkjandi, einkanlega á rimum, mjög lítið er um fléttur.

Plöntur

Vistgerðin er frekar fátæk af tegundum æðplantna, frekar rík af mosategundum en fléttutegundir eru fáar. Ríkjandi tegundir æðplantna í vistgerðinni eru tjarnastör (Carex rostrata), fjalldrapi (Betula nana), bláberjalyng (Vaccinium uliginosum), vetrarkvíðastör (C. chordorrhiza), mýrastör (C. nigra) og hengistör (C. rariflora). Á rimum er allmikil þekja af svarðmosa (Sphagnum) og hraungambra í þúfum, brúnmosar eru ríkjandi í lægðum. Algengustu mosar eru hins vegar skjallmosi (Pseudobryum cinclidioides), móasigð (Sanionia uncinata), roðakló (Sarmentypnum sarmentosum) og mýra­krækja (Scorpidium revolvens), en af fléttum finnast helst fjallagrös (Cetraria islandica), hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula) og broddskilma (Ochrolechia frigida).

Jarðvegur

Lífræn jörð er einráð. Jarðvegur er mjög þykkur, frekar ríkur af kolefni og sýrustig fremur lágt.

Fuglar

Allríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru spói (Numenius phaeopus), lóuþræll (Calidris alpina), heiðlóa (Pluvialis apricaria), óðinshani (Phalaropus lobatus), álft (Cygnus cygnus) og heiðagæs (Anser barachyrhynchus).

Líkar vistgerðir

Brokflóavist, runnamýravist á láglendi og tjarna­stararflóavist.

Útbreiðsla

Rimamýravist er mjög fágæt og staðbundin. Rimamýrar á landinu eru Lauffellsmýrar á Síðumannaafrétti, Miklumýrar á Hrunamannaafrétti og mýrar á Fljótsheiði í Suður-Þingeyjarsýslu.

Verndargildi

Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

 

Rimamýravist

Rimamýravist er mjög fágæt en hún finnst í 1% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 50 km2, óvissa er lítil. – The habitat type is very rare in Iceland and is found within 1% of all grid squares. Its total area is estimated 50 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í rimamýravist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá

Mýri er ekki bara mýri – Mismunandi flokkun votlendis útskýrð og fjallað sérstaklega um dýjavist og rimamýravist (sýnt í Landanum á RÚV 21.10.2018).