Seljalandsfoss og Gljúfrabúi

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja.

Seljalandsfoss og Gljúfrabúi á Íslandskorti
Seljalandsfoss
Mynd: Ólafur Páll Jónsson

Seljalandsfoss.

Gljúfrabúi
Mynd: Ingvar A. Sigurðsson

Gljúfrabúi.

Mörk

Mörk miðast við báða fossa, svo og hamrana og brekkuna á milli þeirra. Auk þess er 200 m jaðarsvæði ofan og neðan við hamrabrún.

Stærð

0,39 km2

Lýsing

Fallegir fossar sem falla fram af fornum sjávarhömrum, Hamragarðahrauni, en undir því er kubbaberg og móberg. Fossarnir eru vatnslitlir en nokkuð háir, Seljalandsfoss er um 60 m hár og Gljúfrabúi um 40 m. Um 700 m eru á milli fossanna og eru þar grasigrónar brekkur og hamrastál efst, móberg að neðanverðu en hraun í efstu brún. Göngustígur er á milli fossanna. Hægt er að ganga á bakvið Seljalandsfoss. Gljúfrabúi leynist inni í móbergsgljúfri en hægt er að ganga inn gljúfrið að fossinum.

Seljalandsfoss er áberandi frá hringveginum þegar ekið er í austurátt og er svæðið meðal vinsælustu áningarstaða ferðamanna hér á landi. Aðstaða ferðamanna hefur verið bætt síðustu ár og er nú gjaldskylda á bílastæði við Seljalandsfoss og tjaldsvæði við Gljúfrabúa.

Flokkun

Grunnflokkur: Virk ferli landmótunar

Flokkur: Vatnafar og jöklar

Gerð: Foss, rofsfossar.

Forsendur fyrir vali

Formfagrir, allháir fossar í vel grónu umhverfi sem tugþúsundir ferðamanna sækja heim ár hvert.

Ógnir

Álag vegna ferðamanna og möguleg uppbygging á aðstöðu fyrir ferðamenn, þjónustumiðstöð of nálægt fossunum gæti haft áhrif á ásýnd þeirra.

Aðgerðir til verndar

Frekari innviðauppbygging og stýring umferðar.

Núverandi vernd

Aðrar náttúruminjar Nr.
Seljalandsfoss og Gljúfrabúi 720

Kortasjá

Seljalandsfoss og Gljúfrabúi í kortasjá

Útgáfudagsetning

3. desember 2020.