Hornafjörður–Kolgríma

Svæðið er tilnefnt vegna vistgerða á landi, fjöruvistgerða og fugla.

Hornafjörður-Kolgríma á Íslandskorti
Hornafjörður
Mynd: Sigríður Kristinsdóttir

Úr Hornafirði.

Mörk

Hornafjarðarós að Kolgrímu vestri, ásamt landsvæðinu neðan þjóðvegar að undanskildu ræktarlandi í Nesjum. Að sunnanverðu liggja mörkin um Suðurfjörur, og að austan  vestan við Höfn, austur fyrir Hafranes, Hólanes, Þveit og Hoffellsá. Að norðan með þjóðveginum, norðan Gildraskers, og áfram til vesturs að Kolgrímu. 

Stærð

184 km2

Hlutfall lands: 52%
Hlutfall fjöru: 31%
Hlutfall sjávar: 2%
Hlutfall fersks vatns: 15%

Svæðislýsing

Víðáttumikill árós og nær samfellt votlendi sem hefur gróið mikið upp eftir að jökulárnar sem flæmdust þarna um voru hamdar eða færðust í fasta farvegi upp úr miðri síðustu öld. Strönd, árósar, sandar og mýrlendissvæði eru vestan og sunnan hringvegar í Nesjum og vestur að Kolgrímu á Mýrum. Mjög fjölbreytilegt land, mikilvægur viðkomustaður farfugla og búsvæði óðinshana og fleiri varpfugla. Víða eru lítið snortnar mýrar. Landbúnaður og ferðaþjónusta er stunduð á svæðinu og eins töluverðar skotveiðar. Þéttbýli er á Hornafirði.

Forsendur fyrir vali

Forgangslandvistgerðir á svæðinu eru sjávarfitjungsvist, gulstararfitjavist og gulstaraflóavist. Gulþörungaleira er í Langhólmanesvík og þar fyrir utan er skeraleira og sandmaðksleira. Mikið fuglalíf og er svæðið alþjóðlega mikilvægt fyrir álft á varptíma og fartíma og heiðagæs og helsingja á fartíma. Væntanlega fara miklu fleiri fuglar um svæðið en tilgreindar tölur benda til. Óvenju mikið af óðinshana verpur austan við Hornafjarðarfljót og mikið af vaðfuglum fer einnig um svæðið.

Vistgerðir

Forgangsvistgerðir
  Vistgerð Km2 % af heildarflatarmáli
Land Gulstararfitjavist 4,44 54
Land Gulstararflóavist 7,48 4
Land Sjávarfitjungsvist 0,35 2
Fjara Gulþörungaleirur <0,01 <1
Fjara Sandmaðksleirur  0,02 <1
Fjara Skeraleirur 50,54 41

Fuglar

Forgangstegundir varp- og farfugla
Tegund  Árstími  Fjöldi  Ár  % af íslenskum stofni
Lómur Varp *30 2016 2
Álft Varp *150 2012 1
Álft Far 603 1982 5
Heiðagæs Far 36.000 2012 10
Helsingi Far 10.000 2013 12
*Pör

Sjá einnig ítarlegri umfjöllun um fuglasvæðið Hornafjörður–Kolgríma.

Ógnir  

Framræsla, beit, vegagerð og vatnaveitingar.

Aðgerðir til verndar

Takmarka sem mest röskun fjöru og leiru. Framræsla verði ekki meiri en orðið er, endurheimt votlendis þar sem landnýting leyfir og stjórn á umferð ferðamanna um svæðið.

Núverandi vernd

Engin.

Kortasjá

Hornafjörður–Kolgríma í kortasjá

Útgáfudagsetning

5. apríl 2018, uppfært 14. maí 2018.