Blómskógavist

L11.3

Eunis-flokkun

G1.91714 Icelandic cranesbill birch woods.

Blómskógavist
Mynd: Borgþór Magnússon

Blómskógavist í Bæjarstaðarskógi í Morsárdal, Skaftafelli. Hávaxinn skógur með gróskumiklum botngróðri þar sem blágresi, ilmreyr, bugðupuntur, vallelfting og gulvíðir ríkja. Gróðursnið BÆ-2. – Cranesbill birch wood in southern Iceland.

Blómskógavist
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Blómskógavist í Vatnshornsskógi í Skorradal. Þéttur skógur með gróskumiklum botngróðri þar sem blágresi, hálíngresi, bugðupuntur, þrílaufungur og snarrótarpuntur ríkja. Gróðursnið B3-C. – Cranesbill birch wood in western Iceland.

Lýsing

Allhávaxnir (hæstu tré >10 m) og gróskumiklir birkiskógar með blágresi og grösum ríkjandi á skógarbotni, á þurru til lítilsháttar deigu, flötu til hallandi landi, á sléttlendi, í dalbotnum og neðanverðum hlíðum. Yfirborð er óslétt og oft nokkuð mishæðótt. Gróðurþekja er mjög þétt og lagskipt, birkikróna er nokkuð samfelld, þekja æðplantna á skógarbotni mikil, mosar áberandi í svarðlagi en lítið um fléttur á skógarbotni.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, mosategundir fremur fáar og fléttur mjög fáar. Birki (Betula pubescens) er ríkjandi tegund, en í undirgróðri ber mest á grösum, blómgróðri og mosum. Ríkjandi tegundir æðplantna í undirgróðri eru blágresi (Geranium sylvaticum), bugðupuntur (Deschampsia flexuosa) og hálíngresi (Agrostis capillaris). Ríkjandi mosategund í sverði er tildur­mosi (Hylocomium splendens), en einnig er mikið um runnaskraut (Rhytidiadelphus triquetrus), engjaskraut (R. squarrosus) og móasigð (Sanionia uncinata). Af fléttum í undirgróðri finnast helst tegundirnar himnuskóf (Peltigera membranacea) og snepaskóf (Parmelia saxatilis).

Jarðvegur

Áfoksjörð er ríkjandi jarðvegsgerð og er jarðvegur fremur þykkur, miðlungi ríkur af kolefni, sýrustig er í meðallagi.

Fuglar

Ríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru skógarþröstur (Turdus iliacus), hrossagaukur (Gallinago gallinago), auðnutittlingur (Carduelis flammea), þúfutittlingur (Anthus pratensis) og músarrindill (Troglodytes troglodytes).

Líkar vistgerðir

Lyngskógavist og kjarrskógavist.

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum á láglendi. Einkum í dalbotnum og brekkurótum þar sem jarðvegur er frjósamur. Mest er af þessari skógargerð á suðurhluta landsins, þar sem úrkoma er ríkuleg og þykkur áfoksjarðvegur.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Blómskógavist

Blómskógavist er ekki aðgreind frá öðrum birkiskógavistum á korti, en í heild eru þær allútbreiddar og finnast í 28% landsreita. Flatarmál þeirra reiknast um 1.500 km2, óvissa er lítil. – The habitat type is on maps not separated from the two related birch woodland types. Together they are rather common in Iceland and found in 28% of grid squares. Their total area is estimated 1,500 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í blómskógavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá

Það er ekkert gaman að vera birki í dag – Kjarrskógavist og blómskógavist falla undir skóglendi (sýnt í Landanum á RÚV 11.11.2018).