Dýjavist

L8.1

Eunis-flokkun

D2.2C12 Philonotis-Saxifraga stellaris springs.

Dýjavist
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Dýjavist í fjallshlíð á Breiðadalsheiði á Vestfjörðum. Þétt breiða af mosanum lindaskarti. Gróðursnið VF- 67-02. – Philonotis-Saxifraga stellaris spring in western Iceland.

Dýjavist
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Dýjavist í hlíð á Steingrímsfjarðarheiði á Vestfjörðum. Dýið myndar kraga á milli grjóturðar og hallamýrar. Mosar eru ríkjandi við urðina en klófífa og mýrelfting taka við þegar fjær dregur. Gróðursnið VF-67-05. – Philonotis-Saxifraga stellaris spring in western Iceland.

Lýsing

Vel grónir votlendisblettir þar sem vatn sprettur fram í grýttum eða malarríkum hlíðum til fjalla og við brekkurætur, einkennist af samfelldum mosabreiðum með strjálingi af æðplöntum, gróður er lágvaxinn. Mynda oft áberandi, gulgræna gróðurfláka til fjalla. Yfirborð er hallandi og lítilsháttar mishæðótt, jarðvegur er vatnsósa og grunnvatnsstreymi fremur jafnt árið um kring. Mosabreiður dýja eru mjög þéttar, þekja æðplantna er lítil og fléttur finnast vart.

Plöntur

Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, fremur rík af mosum en fléttuflóra fremur rýr. Algengustu tegundir æðplantna eru klófífa (Erio­phorum angustifolium), mýrelfting (Equisetum palustre), grasvíðir (Salix herbacea), lækjafræhyrna (Cerastium cerastoides), stjörnusteinbrjótur (Saxifraga stellaris) og lindadúnurt (Epilobium alsini­folium). Einkennistegundir dýjavistar eru mosarnir lindaskart (Pohlia wahlenbergii) og dýjahnappur (Philonotis fontana). Mosarnir vætukrýli (Cephalozia bicuspidata), fjallhaddur (Polytrichastrum alpinum) og lindaleppur (Scapania paludosa) eru meðal algengra tegunda í dýjum. Af fléttum finnast helst kryppukrókar (Cladonia macroceras) og hreindýrakrókar (C. arbuscula) á þurrari blettum við dýin.

Jarðvegur

Lífræn jörð er algengasta jarðvegsgerð, en einnig finnst klapparjörð. Jarðvegur er fremur grunnur og grýttur, kolefni í meðallagi en sýrustig frekar lágt.

Fuglar

Mjög fábreytt fuglalíf, en helst fæðuöflunarsvæði fyrir spörfugla og vaðfugla.

Líkar vistgerðir

Engar.

Útbreiðsla

Dýjavist finnst í öllum landshlutum og mest til fjalla. Algengust er hún á snjóþungum, blágrýtissvæðum á Austurlandi, Mið-Norðurlandi og Vestfjörðum, í 300–800 m h.y.s. Dý á landinu eru mörg en mjög lítil hvert og eitt.

Verndargildi

Miðlungs.

Dýjavist

Dýjavist er útbreidd en hún finnst í 41% landsreita. Hún er hins vegar mjög lítil að flatarmáli og reiknast um 30 km2, óvissa er fremur lítil. – The habitat type is common in Iceland and is found within 41% of all grid squares. Its total area is estimated 30 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í dýjavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá

Mýri er ekki bara mýri – Mismunandi flokkun votlendis útskýrð og fjallað sérstaklega um dýjavist og rimamýravist (sýnt í Landanum á RÚV 21.10.2018).