Kúmen (Carum carvi)

Mynd af Kúmen (Carum carvi)
Mynd: Hörður Kristinsson
Kúmen (Carum carvi)

Útbreiðsla

Gísli Magnússon, kallaður Vísi-Gísli flutti plöntuna inn um 1660 og ræktaði hana þar sem hann bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð (Ágúst H. Bjarnason 1994). Tegundin hefur náð fótfestu og ílenst um sunnanvert landið en finnst aðallega sem slæðingur í túnum eða er sjaldgæf annars staðar. Hæst yfir sjó er kúmenið skráð í Mývatnssveit, í 270–280 m (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Nytjar

Kúmen er ræktað víða vegna olíunnar í fræjunum en hún er notuð við ilmvatnsgerð og vínframleiðslu. Aldinin eru nokkuð notuð í bakstur, osta (Ágúst H. Bjarnason 1994) og ýmsa rétti en einnig má nota blöðin til matar. Sem lækningajurt þykir kúmenið gott við miklum vindgangi og verkjum í meltingarvegi. Það örvar matarlyst, þykir gott gegn kvefi og hósta þar sem það losar slím úr öndunarfærum og örvar mjólkurmyndun kvenna. Rokgjarnar olíur kúmensins skila sér út í mjólkina og berast því barninu (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Í kúmeni má m.a. finna barksýrur og ilmolíur sem innihalda t.d. karvón og límónín (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Graslendi og tún.

Lýsing

Fremur hávaxin planta (20–50 sm) með fjöðruð blöð og striklaga smáblöð. Blómstrar hvítum blómsveipum í maí–júní.

Blað

Tvíær jurt (Ágúst H. Bjarnason 1994). Blöðin tví- til þrífjöðruð. Smáblöðin striklaga eða mjólensulaga, oddmjó (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru í tvöföldum, 3–5 sm breiðum sveipum, blómin 2–3 mm í þvermál, fimmdeild. Krónublöðin hvít eða ofurlítið bleikmóleit, jöfn að stærð, með rifi eftir miðju efra borði og innbeygðri totu í endann. Fræflar fimm, frævan tvískipt með tveimur stílum (Hörður Kristinsson 1998).

Aldin

Aldinið klofnar í tvö íbjúg deilialdin sem eru rifjuð, móbrún, 3–4 mm löng (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Auðþekkt frá öðrum íslenskum tegundum í blóma en blöðin líkjast nokkuð blöðum af baldursbrá, bleðlarnir eru þó breiðari og ekki eins þráðlaga.

Útbreiðsla - Kúmen (Carum carvi)
Útbreiðsla: Kúmen (Carum carvi)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |