Spánarsnigill (Arion vulgaris)

Spánarsnigill - Arion vulgaris
Mynd: Erling Ólafsson

Spánarsnigill (Arion vulgaris). 140 mm. ©EÓ

Spánarsnigill - Arion vulgaris
Mynd: Erling Ólafsson

Spánarsnigill (Arion vulgaris). 140 mm. ©EÓ

Spánarsnigill - Arion vulgaris
Mynd: Erling Ólafsson

Spánarsniglar (Arion vulgaris). 80 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa, norður til miðbiks Skandinavíu, Færeyjar, Alsír í N-Afríku, Falklandseyjar við S-Ameríku. Upprunninn á Íberíuskaga, þ.e. vesturhluta Spánar, Portúgal og S-Frakklandi, en tók að dreifast út þaðan á seinni hluta 20. aldar.

Ísland: Höfuðborgarsvæðið, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Mosfellsbær, einnig Akranes, Hnífsdalur, Hofsós, Ólafs-fjörður, Hveragerði, Heimaey og Höfn í Hornafirði.

Lífshættir

Spánarsniglar finnast í húsagörðum og gróðrarstöðvum. Lífsferill tekur eitt ár. Kynþroska sniglar deyja á haustin en ungir sniglar, allt frá nýskriðnum úr eggjum til nær kynþroska grafa sig niður í jarðveg á haustin og leggjast í dvala. Þeir birtast á ný að afloknum vetrarsvefni, taka hraustlega til matar síns, ná kynþroska hver af öðrum eftir því sem á sumar líður og taka til við að tímgast. Spánarsniglar verða með stærstu sniglum, allt að 15 cm langir, og eru mikil átvögl sem éta um hálfa þyngd sína á dag. Á matseðlinum er nánast allt lífrænt sem á vegi snigilsins verður. Skrautjurtir og matjurtir eru í hávegum hafðar. Hann hefur sérstakt dálæti á lyktarsterkum plöntum eins og kryddjurtum, laukum og flauelsblómum (Tagetes). Einnig étur hann hræ, hundaskít og aðra snigla. Spánarsnigill getur tímgast án þess makast við annan einstakling og verpir um 400 eggjum. Viðkoma er því mikil við góðar aðstæður, þ.e. nóg fæðuframboð og góðan raka.

Almennt

Upp úr 1960 fór spánarsnigils að verða vart utan hefðbundinna heimkynna í SV-Evrópu og hægt og bítandi lagði hann undir sig ný lönd. Árið 1975 hafði hann náð til S-Svíþjóðar. Hann var mættur til Noregs 1988 og hefur einnig náð til Álandseyja og Finnlands. Árið 1996 var hann svo kominn til Færeyja. Nokkur ár liðu enn áður en hann mætti til leiks hér á landi, en þeir fyrstu fundust í Reykjavík og Kópavogi 2003. Ári síðar fannst spánarsnigill á Ólafsfirði og á næstu árum kom í ljóst að hann hafði fest sig þar í sessi. Árið 2008 skaut svo sitthvor snigillinn upp kolli í Hnífsdal og Höfn í Hornafirði. Árið 2009 fannst spánarsnigill á Hofsósi en hann hafði borist með grænmeti erlendis frá. Það ár fannst hann einnig í fyrsta sinn í Mosfellsbæ, í hverfi húsa sem byggð voru í spænskum stíl og var það við hæfi, svo og á Heimaey. Akranes bættist bættist við 2011 þegar fimmtán sniglar fundust þar í garði. Í októberbyrjun það sama ár fannst fjöldi spánarsnigla í garði í Grafarvogi í Reykjavík. Því er ljóst að þessi nýbúi er að sækja í sig veðrið.

Spánarsnigill dreifist nær eingöngu af mannavöldum, einkum sem egg eða ungviði með plöntum og jarðvegi. Hann er orðinn geysialgengur í nágrannalöndunum og er þar orðinn til mikils skaða í görðum og garðrækt. Snigillinn hefur því átt greiða leið til Íslands með innfluttum plöntum og jarðvegi í blómapottum. Spánarsnigill á að líkindum eftir að reynast eitt mesta meindýr sem við höfum borið með okkur til landsins. Í Færeyjum er hann þegar orðinn vandræðagripur. Það sem gerir hann að slíkum vágesti er frjósemi hans, stærð og græðgi. Í heimahögum á Íberíuskaga mætir spánarsnigill þurru loftslagi með því að verpa miklum fjölda eggja til að auka líkur á að einhver þeirra nái að þroskast og verða að sniglum. Þegar hann svo berst til landa þar sem úrkoma er tryggari og loftslag rakara klekjast flest eggin og verða að sniglum. Á Norðurlöndum óttast menn að spánarsnigill er farinn að tímgast með ættingja sínum svartsniglinum (Arion ater). Þar sjá menn fyrir sér blendinga í mynd ofursnigils með frjósemi spánarsnigils og aðlögun svartsnigils að kaldara loftslagi. Slíkt samband ættingjanna tveggja kann einnig að takast hérlendis. Spánarsnigill er rauður eða rauðbrúnn á lit og engum öðrum íslenskum snigli líkur nema helst skuggasnigli (Arion subfuscus) sem er algengur í görðum, brúnn til gulbrúnn á lit og miklu minni.

Spánarsnigill er að öllu jöfnu auðþekktur frá öðrum sniglum hérlendum, þar sem hann er einlitur rauður þó rauði liturinn geti verið breytilegur. Fullvaxinn er hann tröllvaxinn, miklu stærri en aðrir sniglar af Arion ættkvíslinni. Reyndar hefur þróunin orðið sú að spánarsniglar sem fundist hafa á seinni árum eru mun smávaxnari en þeir sem fundust fyrstu árin og er það aðlögun að stuttu sumri hér á norðurslóðum.

Áskorun

Á Náttúrufræðistofnun Íslands er landnámssaga spánarsnigils skráð og er mikils um vert að spánarsniglar sem finnast á komandi árum verði sendir stofnuninni til rannsókna. Þeim skulufylgja upplýsingar um fundarstaði, aðstæður eða staðhætti auk dagsetninga. Ljósmyndir koma einnig að notum. Mikilvægt er að sporna gegn landnámi spánarsnigils eins og frekast er unnt og skal því tortíma þeim sniglum sem ekki gefst kostur á að skila til Náttúrufræðistofnunar.

Spánarsnigill - Arion vulgaris
Spánarsnigill (Arion vulgaris) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bloch, D. 2003. Morsnigilin ella hin spanski snigilin. Frødi 1/2003: 16–18.

Jensen, J.-K. 2007. innflutt flogkykt og aðrir ókynsktir gestir. Óðalstíðindi 6: 8–13.

María Ingimarsdóttir & Erling Ólafsson 2005. Spánarsnigill finnst á Íslandi, því miður ... Náttúrufræðingurinn 73: 75–78.

María Ingimarsdóttir & Erling Ólafsson 2006. Spánarsnigill. Nýr skaðvaldur kominn til að vera. Garðyrkjuritið 2006: 87–89.

Terney, O. 1998. Spansk skogsnegl alias dræbersneglen. BioNyt 104: 3–22.

von Proschwitz, T. & K. Winge 1994. Iberiaskogsnegl – en art på spredning i Norge. Fauna 47: 195–203.

Weidema, I.R. (ritstj.) 2000. Introduced species in the Nordic countries. Nord 2000: 13. 242 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |