Horblaðka (Menyanthes trifoliata)

Mynd af Horblaðka (Menyanthes trifoliata)
Picture: Hörður Kristinsson
Horblaðka (Menyanthes trifoliata)
Mynd af Horblaðka (Menyanthes trifoliata)
Picture: Hörður Kristinsson
Horblaðka (Menyanthes trifoliata)

Útbreiðsla

Algeng á láglendi en finnst sjaldan í meira en 500 m hæð til fjalla (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Hún er stundum nefnd reiðingsgras þar sem jarðstöngullinn var notaður í reiðing, horblöðkunafnið á fremur við í þurrari mýrum þar sem jurtin myndar aðeins blöðkur en blómstrar sjaldan (Hörður Kristinsson 1998). Jarðstöngullinn hefur stundum verið nefndur álftakólfur, mýrakólfur, keldulaukur og nautatá. Remmublöð, mýrarhófur, þríblað, kveisugras og ólúagras eru jafnframt nöfn sem þekkt eru yfir þessa tegund (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Horblaðka hefur töluvert verið nýtt til lækninga. Hún örvar meltingu og hægðir auk þess sem hún er bólgueyðandi og hitastillandi. Hún hefur verið notuð við gigt af ýmsum toga. Hana má nota gegn langvarandi bólgum í líkamanum, öðrum en magabólgu (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998). Hún þykir góð við skyrbjúgi, gulu, miltis- og lifrarveiki. Eins þótti hún góð til hárþvotta (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Líffræði

Plantan inniheldur m.a. sápunga, ilmolíur, inúlín, kólín, C-vítamín og joð (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Búsvæði

Mýrar, síki og tjarnavik (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Grófgerð planta, 20–30 sm há eða hærri ef hún vex í vatni, blöðin þrífingruð og blómin hvít í klösum. Blómgast í júní.

Blað

Blöðin þrífingruð á 10–30 sm löngum stilk, smáblöðin 4–10 sm á lengd og 2–6 sm á breidd, hárlaus, öfugegglaga eða breiðoddbaugótt, heilrend. Jarðstöngullinn langur og liðaður, 7–10 mm gildur (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin eru leggjuð í stuttum klasa efst á stönglinum, 2–3 sm í þvermál, fimmdeild. Blómhnapparnir rauðleitir fyrir blómgun. Krónan hvít, klofin niður til miðs eða meir í fimm flipa. Krónufliparnir ofurlítið rauðleitir í oddinn, alsettir hvítum þráðum að innanverðu. Bikarinn nokkuð djúpklofinn, fliparnir snubbóttir, rauðgrænir að lit. Fræflar fimm, frjóhirslur dökkar. Ein fræva með einum stíl og þrískiptu fræni (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist engri annarri íslenskri tegund.

Útbreiðsla - Horblaðka (Menyanthes trifoliata)
Útbreiðsla: Horblaðka (Menyanthes trifoliata)

Höfundur

Was the content helpful Back to top

Back to top

Thank you!

Please tell us why:

  • Hide
  • |